Íviðtali við málgagn Alþýðubandalagsins, Vikublaðið, 20. maí árið 1997 var Lúðvík Geirsson núverandi bæjarstjóri í Hafnarfirði spurður að því á hvaða stjórnmálamanni hann hefði mest álit. Ekki stóð á svari: Lenín. Já, Lenín! Og hér er rétt að taka fram að Lúðvík var ekki beðinn um að nefna þann fjöldamorðingja úr röðum stjórnmálamanna sem hann hefði mest álit á heldur bara einhvern stjórnmálamann. Hann var ekki beðinn að gera upp á milli Hitlers, Stalíns, Pols Pots, Leníns og Maós heldur hefði hann mátt velja hvern sem er. Til að leggja áherslu þessa skoðun sína á hinum geðþekka fjöldamorðingja bætti Lúðvík því við að „hann var traustur foringi“.
Sem kunnugt er kusu Hafnfirðingar þennan mann sem bæjarstjóra í vor. Fyrir kosningar lofaði hann því að segja upp þeim samningi sem Hafnarfjarðarbær hafði gert við Íslensku menntasamtökin um skólastarf í Áslandsskóla. Einu mátti gilda hvernig til tækist með rekstur skólans, samningnum yrði sagt upp. Það var ófrávíkjanlegt að enginn mætti reka skóla með öðrum hætti en fellur að pólitískri sannfæringu Lenínistans. Það segir sig sjálft að stjórnendur skóla eiga áhægt um vik þegar þeim hefur verið stillt upp fyrir framan aftökusveit bæjarins á þennan hátt. Við þessa ógn frá bæjarstjóranum bættust svo ofsóknir Eiríks Jónssonar formanns Kennarasambands Íslands en hann er á móti öllum nýjungum og þróun í skólastarfi og er haldinn þráhyggju um mikilvægi „lögverndunar“ kennarastarfsins, það er að segja lögverndaðrar einokunar á starfi kennara og skólastjóra.