Laugardagur 21. september 2002

264. tbl. 6. árg.

One day, perhaps, the wheelchair motif will be adopted as our national flag.

– Auberon Waugh

Bresk stjórnvöld hafa á síðustu árum verið óþreytandi að leggja nýjar hömlur á starfsemi fyrirtækja eða setja þeim ný og flóknari skilyrði fyrir starfsleyfi. Allt er það jafnan sagt gert til að verja einhverja góða og fagra hagsmuni og treysta þá fæstir sér til að andmæla. Allar þessar hömlur, þessi ströngu skilyrði, þessi nákvæmu fyrirmæli um hvað sem nöfnum tjáir að nefna, útbúnað, aðgang, leiðbeiningar, merkingar, innihaldslýsingar, viðvaranir, fyrirvara, hættumat og áfallahjálp, verða hins vegar til þess að leggja mikinn kostnað á fyrirtæki, kostnað sem þau verða að ná með hækkuðu vöruverði. Ekki aðeins mikið fé heldur einnig mikill tími og fyrirhöfn fara í að uppfylla öll skilyrði hins opinbera og fylgjast með því hvort ekki hafi einhver ný bæst við síðan síðast. Þegar svo mikill kraftur er dreginn úr fyrirtækjunum þá kemur það illa niður á mörgum. Vöruverð hækkar, laun standa í stað, starfsemi verður óhagkvæmari, framfarir verða hægari.

Nú hyggjast bresk stjórnvöld setja þá reglu að allt húsnæði sem ætlað sé til viðskipta af einhverju tagi skuli þannig úr garði gert að fatlaðir komist þangað vandræðalaust. Hljómar það nú ekki vel? Hver getur verið á móti því að fatlaðir komist leiðar sinnar? Auðvitað er gott að sem fæstir þröskuldar séu í vegi fatlaðra en regla eins og þessi hefði gríðarlegar afleiðingar og ekki allar jafn skemmtilegar. Kostnaðurinn fyrir fyrirtækin yrði gríðarlegur og í mörgum tilvikum slíkur að engin leið yrði að mæta honum. Og allar verslanirnar og krárnar sem reknar eru í gömlum byggingum miðborga um allt England, þar verður skylt að vera með sjálfvirkar hurðir, lyftur milli hæða og í stigum mega meira að segja ekki vera fleiri tröppur en 12 í röð – því sumir þola ekki meira. Þetta munu fyrirtæki, einkum þau minni, ekki ráða við. En það er stjórnvöldum alveg sama um. Nýjar reglur. Betra aðgengi. „Viljiði ekki að fatlaðir komist í búðir, ha, þið miskunnarlausu menn?“

Rithöfundurinn Auberon Waugh var einn kunnasti og vinsælasti dálkahöfundur breskra fjölmiðla en hann hélt árum saman úti dálki í því virta blaði, The Daily Telegraph. Þar deildi hann mjög á þær látlausu reglur, margar hverjar óframkvæmanlegar, sem settar hafa verið í nafni fatlaðra. Fræg varð deila hans og Normans Tebbits formanns Íhaldsflokksins og hægri handar Margrétar Thatchers, en þeir tókust á um rauðu símaklefana sem settu svo mikinn svip á Lundúnaborg en hentuðu hjólastólamönnum auðvitað illa. Í stað klefanna var klastrað upp plastboxum sem Waugh þótti afskaplega ljót. Hann viðurkenndi að hin nýju myndu henta þeim betur sem bundnir væru hjólastóli en sagði það bara ekki næga ástæðu til að kasta hinum stílhreinu og glæsilegu símaklefum en hrúga í staðinn upp forljótum plastóskapnaði um allt England!

Nú má auðvitað segja að það sé hart að fatlaðir komist ekki í síma, ekki ber að gera lítið úr því sjónarmiði. Það eru nægir erfiðleikar sem fylgja flestri fötlun þó annað fólk auki þá ekki með óþörfum hindrunum. Það er gott og til eftirbreytni að menn reyni að létta fötluðum lífið og gera þeim auðveldara að bjarga sér sjálfir svo sem þeir best geta. En heilbrigð skynsemi má ekki hverfa þó menn vilji gera fötluðum lífið þægilegra. Þegar menn verða farnir að loka fyrirtækjum sem ekki eru búin sjálfvirkum hurðum eða banna mönnum að reisa slík hús, þá eru menn komnir langt út fyrir mörk náungakærleikans. Þá er einhver önnur kennd tekin við.