Vinnsla pálmaolíu, sem Íslendingar hafa verið þvingaðir til að nota á bílana sína undanfarin ár, stuðlar að eyðingu regnskóga og annars lífríkis og ýtir undir þrældóm kvenna og barna. Þetta hefur legið fyrir um árabil en kemur nú fram í greinargerð þingmanna VG og Samfylkingar með tillögu um að banna innflutning á pálmaolíu sem eldsneytis.
Það var ríkisstjórn Samfylkingar og VG sem veitti innflutningi á pálmaolíu skattívilnun árið 2011. Það var sagt gert í þágu loftslagsmála. Þegar það dugði ekki til að stórfelldur innflutningur á slíku eldsneyti hæfist bætti vinstri stjórnin við lagaskyldu til þess arna bætt við árið 2013. Í þágu loftslagsmála. Lagaskyldan kveður á um 5% íblöndun lífeldsneytis af þessu tagi í hefðbundið eldsneyti. Hagsmunaaðlili skrifaði frumvarpið fyrir vinstri stjórnina og notaði ótímabæra innleiðingu á reglum ESB sem yfirvarp. Um helmingur þeirrar pálmaolíu sem fluttur er til Evrópu er notaður sem eldsneyti á farartæki.
Um næstu áramót mun þessi íblöndun svo aukast upp í um 10% vegna áhrifa af reglugerð sem sett var af umhverfisráðherra Framsóknarflokksins haustið 2016. Í þágu loftslagsins auðvitað. Það er sérstakt umhugsunarefni að umhverfisráðherra Framsóknarflokksins hafi látið plata sig til að setja reglugerð um skyldu Íslendinga til að flytja inn þessar ömurlegu landbúnaðarafurðir í stórum stíl.
Vinstri grænir og Samfylking settu lög sem sem þingmenn þessari flokka segja nú sjálfir að eyði regnskógunum og auki mengun. Framsóknarflokkurinn skyldaði menn til að flytja inn meira af landbúnaðarafurðunum sem flokkurinn er þó jafnan andvígur. Það sem menn gera ekki í þágu loftslagsins.
Stærstur hluti þess skattfjár sem nýttur er til að að niðurgreiða þennan innflutning eru bensín- og olíugjöld sem upphaflega voru ætluð í vegagerð. Í stað þess að fara í vegabætur á Íslandi renna skattarnir nú til pálmaolíuframleiðenda. Íslenska ríkið ívilnar hverjum lítra af pálamolíu eða matjurtaolíu sem flutt er til landsins samtals um 90 krónur. Samtals streymir yfir 1 milljarður króna á ári úr ríkissjóði í þetta umhverfisslys.
En erlendu framleiðendurnir fá ekki aðeins vegafé Íslendinga heldur einnig kolefnisgjöldin sem vinstri stjórnin lagði á eldsneyti. Jájá þau voru lögð á í þágu loftslagsmála. Ef skattur er kallaður grænn hlýtur hann að vera góður. En kolefnisgjöldin voru bara lögð á almenna eldsneytið á einkabílinn og útgerðina sem bera samanlagt ábyrgð á innan við 10% útblásturs koltvísýrings hér á landi. Tilgangurinn hafði því ekkert með umhverfið eða loftslagið að gera heldur var þetta bara ný leið til að sækja fé í ríkissjóð.
Kolefnisgjaldið er aðeins lagt á lítið brot af útblæstrinum og stuðlar svo að eyðingu á regnskógunum, vegur að líffræðilegri fjölbreytni, hefur aukinn útblástur gróðurhúsalofttegunda í för með sér og heldur konum og börnum í vinnuþrælkun, segja þeir sem lögðu gjaldið á.
Eru ekki allir til í fleiri og hærri græna skatta?