Vegafé streymir úr landi

Er þörf á veggjöldum á meðan eldsneytissköttunum er kastað út um gluggann?

Yfir milljarður af eldsneytissköttunum sem Íslendinga greiða árlega er notaður til að niðurgreiða innflutning á lífeldsneyti frá Evrópusambandslöndunum.

Þessir skattar voru upphaflega lagðir á eldsneytið til að standa undir vegagerð hér innanlands. Nú rennur hluti þeirra hins vegar úr landi sem niðurgreiðsla á innkaupum á dýru og orkusnauðu lífeldsneyti sem blandað er í bensín og Dieselolíu sem seld eru hér á landi.

Í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn á Alþingi kom fram að lögbundnar  ívilnanir ríkisins „vegna þess magns lífeldsneytis sem flutt var inn eða notað á árinu 2015 hefðu numið 1,1 – 1,3 milljörðum kr.“

Um næstu áramót gæti þessi sóun tvöfaldast ef farið verður að kröfum Evrópusambandsins.

Lífeldsneytið, sér í lagi etanólið sem blandað er í bensín, hefur allt að 35% lægra orkuinnihald en bensín og leiðir því til aukinnar eyðslu, fleiri ferða á bensínstöðvar og aukins innflutnings á eldsneyti. Notkun á matjurtum (korni, repju, maís) í eldsneyti orkar sömuleiðis tvímælis gagnvart bæði náttúrunni og þeim sem búa við fæðuskort. Notkun pálmaolíu í sama tilgangi ýtir undir eyðingu regnskóga.

Þessi ósköp voru leidd í lög á Íslandi af vinstri stjórninni á árunum 2011 – 2013. Var það gert á þeirri forsendu eins og segir í lögunum um hlutfall endurnýjanlegs eldsneytis að „lög þessi fela í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/28/EB um að hvetja til notkunar orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum.“ Þessi tilskipun er liður í þeirri stefnu ESB að koma endurnýjanlegri orku innan sambandsins upp í 20%. Liechtenstein, sem er EFTA ríki eins og Ísland, fékk undanþágu frá tilskipuninni.

Innleiðing þessarar tilskipunar frá ESB hér á landi var algerlega fráleit því yfir 70% heildarorkunotkunar Íslendinga er þegar annað með innlendum endurnýjanlegum orkugjöfum. Sem er heimsmet. Sama hlutfall fyrir ESB er 17%. Hér eru menn líka að nota þessa innlendu endurnýjanlegu orkugjafa beint á rafbíla. Tæp 6% bílaflota landsmanna nota nú endurnýjanlega orku að einhverju leyti, einkum endurnýjanlega raforku. Íslendingar þarfnast því engrar leiðsagnar frá ESB um þessi mál þar sem stærsti hluti hinnar litlu endurnýjanlegu orku sambandsins er fenginn með óhreinni brennslu á viði og öðrum lífmassa.