Bretar setja Ísland aftur á lista

Fólkið sem vildi að íslenskur almenningur borgaði Icesave styður ætíð atlögur erlendra embættismanna að Íslandi.

Ekkert ríki er með jafn margar skattaparadísir undir sínum verndarvæng og Bretland. Allt frá fjöruborði Ermasunds og suður um höf og álfur. Jersey, Cayman, Bermuda, Bresku Jómfrúaeyjar…

Samkvæmt Fréttablaðinu 17. október beittu bresk stjórnvöld sér fyrir því innan FATF að Ísland væri sett á athugunarlista. FATF er starfshópur um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Þó liggur fyrir að Ísland hefur gripið til allra þeirra aðgerða sem lagðar voru til í úttekt starfshóps FATF í apríl á síðasta ári. Meðal annars var samþykkt ný heildarlöggjöf um þessi mál síðasta haust. Starfshópurinn gaf sér hins vegar ekki tíma til að fara yfir allar ráðstafanir Íslands áður en hann færði landið á þennan athugunarlista. Það er furðulegt virðingarleysi. Leynd er yfir atkvæðagreiðslum hjá FATF. Atkvæðagreiðslur hjá hjá FATF eru líka öfugsnúnar. Ef 5 þjóðir hafa greitt því atkvæði að Ísland færi á listann en 75 greitt atkvæði á móti tillögunni þá hefur hún hlotið samþykki!

Þeir sem kynna sér einkunnagjöf FATF um einstök lönd sjá hve langsótt og beinlínis rangt það er að Ísland sé sett á þennan lista. Það verður til að mynda ekki séð að Ísland standi verr að vígi en Bandaríkin.

Tom Keatinge yfirmaður efnahagsbrotamála hjá Royal United Service Institute segir í grein sem hann skrifaði eftir FATF fundinn í París að FATF verði æ oftar pólitík að bráð. Hann bendir á að örríkið Ísland sé sett á þennan lista en ekki neitt af stóru aðildarríkjunum 39 sem mörg hafi þó orðið uppvís að alvöru afglöpum í þessum efnum. Trúverðugleiki FATF fari því minnkandi. Þessi orð Keatinge eru áminning um að ákvarðanir í alþjóðlegu samstarfi eru oft ómálefnalegar. Stóru ríkin ná ekki samstöðu um að ávíta hvert annað fyrir augljósa misbresti. Þau grípa þá til þess ráðs að moppa sín gólf með smáríki eins og Íslandi sem ekkert hefur til sakar unnið. Þannig sýnast samtökin vera að gera eitthvað af alvöru þegar þau eru í raun að hengja bakara fyrir smið. Auðvitað er með þessu verið að veita falskt öryggi um stöðu mála í stóru aðildarríkjunum. Þar með er þessi eftirlitsstofnun orðin verri en engin.

David Lewis framkvæmdastjóri FATF og fyrrum starfsmaður Alistair Darling fjármálaráðherra Breta.

Fulltrúi kínverska kommúnistaflokksins er nú stjórnarformaður FATF og fundurinn í París var sá fyrsti undir hans stjórn. Í Kína er sennilega búið að tryggja með einhverjum heilbrigðum ráðum að Falun Gong og önnur almannaheillafélög séu ekki nýtt til peningaþvættis. En þegar betur er að gáð standa reyndar fleiri atriði útaf hjá Kína en Íslandi í einkunnagjöf FATF. Kína fer þó ekki á lista heldur er fámenna Mongólía sem stendur sig engu síður en Kína sett á listann.

Í viðskiptablaði Morgunblaðsins í síðustu viku kom fram að David Lewis framkvæmdastjóri FATF starfaði áður í breska fjármálaráðuneytinu á árunum 2009 – 2015 í aðgerðum gegn fjármögnun hryðjuverka. Hann var því í ráðuneytinu stærstan hluta þess tíma sem Icesave deilan stóð eftir að ráðuneyti hans beitti hryðjuverkalögum gegn Íslandi haustið 2008. Ísland lenti þar á lista með Osama Bin Laden. Nú setja samtökin sem hann stýrir Ísland á lista með Zimbabwe. Það má alveg spyrja hvort fulltrúi breska fjármálaráðuneytisins sé hæfur til að fjalla um það innan FATF hvort Ísland eigi heima á einhverjum misyndislistum. Á meðan Lewis var í ráðuneytinu felldu Íslendingar tvívegis í þjóðaratkvæðagreiðslu að ganga að kröfum Breta um Icesave og málarekstur Breta gegn Íslandi rann út í sandinn árið 2013. Bretar hafa aldrei beðist afsökunar á þessari ómaklegu aðför að Íslandi. Bresk stjórnvöld líta formlega enn svo á að þetta hafi verið réttlætanleg aðgerð.

Hér á landi var nægt framboð af stjórnmálamönnum, fræðimönnum og álitsgjöfum sem tóku undir með Bretum um að íslenskur almenningur ætti að taka ábyrgð á skuldum einkabanka við fjármagnseigendur. Þessir menn sögðu það uppeldisatriði fyrir spillta þjóð og börnin hennar að gangast í ábyrgð við skuldum bankamanna. Þeir greiddu stórfé fyrir birtingu hákarlsauglýsingarinnar hér að neðan sem átti að hræða Íslendinga til að segja JÁ við Icesave ánauðinni. Og ekki batnaði það þegar ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lögðust á árarnar með Bretum. Þá áttum við að verða Kúba norðursins ef við hlýddum ekki. En Kúba er reyndar ekki á athugunarlista FATF. Og ekki heldur fjölmörg önnur ríki sem eru talin með margt í ólagi.

Hræðsluáróður ESB-sinna um Icesave.

Einmitt þetta sama fólk gleðst nú mjög yfir því að Bretum hafi tekist í annað sinn að koma Íslendingum að ósekju inn á lista yfir lönd sem eru álitleg fyrir peningaþvætti, ekki síst fyrir hryðjuverkamenn. Það eru öll sömu orðin notuð og í Icesave málinu, ekki síst „orðsporsáhætta“ og „álitshnekkir erlendis.“ Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar náði einnig að koma því að í þingræðu í síðustu viku að Íslendingar væru „einfaldlega mestu umhverfissóðar veraldar.“

Í þessum málum kemur einnig fram undarleg trú á því að útlendingar, ekki síst andlitslausir erlendir embættismenn, hafi alltaf rétt fyrir sér um íslensk málefni. Þess vegna trúðu menn til dæmis erlendum matsfyrirtækjum í blindni fyrir bankahrunið. Og líka eftir hrunið. Þess vegna hlutu embættismenn í London, Haag og Brussel að hafa rétt fyrir sér í Icesave. Þess vegna hljóta bjúrókratar í nefndum Evrópuráðsins alltaf að hafa rétt fyrir sér en Alþingi og Hæstiréttur Íslands alltaf rangt fyrir sér. Þess vegna eiga Íslendingar ekki að veiða hvali. Þess vegna eiga Íslendingar að flytja inn matjurtaolíu á bílana sína í stað þess að nota innlenda orku. Allir aðrir en Íslendingar vita allt best og réttast um íslensk málefni.

Auðvitað litast afstaða margra í þessum málum af ákefð þeirra í aðild Íslands að ESB. Tilraunir til að telja fólki trú um að Íslendingar geti ekki séð um sín mál sjálfir eru liður í því að koma Íslandi inn í sambandið.

En þrátt fyrir allt þetta niðurrifstal er Ísland á nær alla mælikvarða eitt farsælasta þjóðfélag veraldarsögunnar.