Sjöhundruð hælisumsóknir Albana

Tilhæfulausar hælisumsóknir eru misnotkun á velvild Íslendinga og bitna á fólki sem er á raunverulegum flótta.

Ísland hefur sett á legg tvö kerfi fyrir fólk á flótta undan stríði og ofsóknum. Annars vegar er það svonefnd alþjóðleg vernd sem ætluð er fólki sem hingað er komið á eiginn vegum og getur ekki snúið heim og hefur ekki óskað eftir hæli í öðru öruggu ríki. Þessir einstaklingar geta, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, fengið hæli hér á landi. Hins vegar taka Íslendingar árlega á móti tugum svonefndra kvótaflóttamanna. Kvótaflóttamönnunum er sérstaklega boðið hingað af íslenskum stjórnvöldum.

Íslenska hælisleitendakerfinu er eins og öðrum velferðarkerfum takmörk sett. Því er grátlegt að horfa upp á umsóknir fólks um hæli frá öruggum ríkjum á borð við Albaníu. Þær stífla kerfið og draga úr getu þess til að sinna fólki sem raunverulega er á flótta.

Skyndiúthlutun Alþingis á ríkisborgararétti til nokkurra Albana fyrir jólin 2015  ýtti vafalítið undir að fleiri Albanir freistuðu gæfunnar í íslenska hæliskerfinu. Það spyrst út að hér verði hvert upphlaupið á fætur öðru á þingi, samfélagsmiðlum og fjölmiðlum vegna brottvísana fólks sem er alls ekki á flótta. Slíkur æsingur geti jafnvel leitt til þess að menn fái íslensk vegabréf án þess að hafa uppfyllt nokkurt þeirra skilyrða sem almennt eru gerð fyrir ríkisborgararétti á Íslandi. Í óðagoti útdeili menn réttindum án þess að nokkurs jafnræðis sé gætt. Á meðan flestir þurfi margra ára ræktarsemi við Ísland til að öðlast íslenskt ríkisfang geti aðrir skotist fram fyrir röðina þegar ryki er þyrlað upp í fjölmiðlum.

Það tók nokkur ár að vinda ofan af þessu áhlaupi frá Albaníu. Afgreiðslu 645 umsókna frá Albönum um hæli var lokið á árunum 2016 – 2019. Alls voru 6 umsóknir afgreiddar með jákvæðum hætti. Yfir 99% umsóknanna var hafnað. Er ósanngjarnt að kalla þessar umsóknir tilraunir til að misnota stuðning Íslands við fólk á flótta?

Tilhæfulausar hælisumsóknir bitna nefnilega ekki aðeins á íslenskum skattgreiðendum. Þær bitna einnig á fólki sem er raunverulega á flótta undan ógnarástandi í heimalandi sínu. Þær tefja afgreiðslu raunhæfra umsókna með þeirri óvissu sem töfinni fylgir. Þær draga úr möguleikum kerfisins til að bjóða umsækjendum um alþjóðlega vernd góðar aðstæður.

Vissulega eru til dæmi úr öllum velferðarkerfum um að umsóknum sé hafnað. Í fæstum tilvikum hafa slíkar tilhæfulausar umsóknir í för með sér jafn stórkostlegan kostnað fyrir skattgreiðendur og tilhæfulausar umsóknir um hæli gera. Það er ekki aðeins að 89 starfsmönnum Útlendingastofnunar og 19 starfsmönnum Kærunefndar útlendingamála sé haldið uppteknum við afgreiðslu þessara tilrauna til misnotkunar á kerfinu. Útvega þarf hinum óbilgjörnu umsækjendum húsnæði, fæði og læknisþjónustu á meðan leitað er leiða til senda þá til síns heima. Að lokum þarf svo að kaupa undir þá og fylgdarmenn þeirra flugfar. Fé og tíma íslenskrar lögreglu er sóað í að fylgja þeim á leiðarenda.

Þeir bera auðvitað mesta ábyrgð sjálfir sem leggja fram tilhæfulausar umsóknir um hæli. Sérstaka ábyrgð bera þeir sem draga börn sín eða veikburða fjölskyldumeðlimi með í slíka erindisleysu yfir hafið. Og neita svo jafnvel að snúa sjálfviljugir heim í vikur eða mánuði eftir að hælisvist er hafnað. Eru þá ógleymdir þeir Íslendingar sem hvetja fólk frá öruggum ríkjum beint og óbeint inn í þetta öngstræti og grafa svo í sífellu undan tilraunum Útlendingastofnunar til að lágmarkið tjónið.