Loftfimleikar Umhverfisstofnunar með útblástur bílsins

UST segir bíla losa 34% þegar rétt tala er nær 6%. UST telur losun frá nær daglegu þotuflugi starfsmanna sinna ekki með.

Umhverfisstofnun sendi í síðustu viku frá sér tilkynninguna „Umhverfisvænni samgöngur lykilþáttur í minni losun.“ Í þessari tilkynningu er farið afar frjálslega með tölur um losun Íslendinga á gróðurhúsalofttegundum og skuldinni skellt á bíleigendur með ómaklegum hætti.

Það er bara rangt að umhverfisvænni samgöngur séu „lykilþáttur í minni losun“ gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. UST segir í tilkynningunni að hlutur vegasamgangna af heildarlosun Íslands sé 34%. Hið rétta er að hlutur vegasamgangna (einkabílar, strætó, rútur, flutningabílar) í losun er um 6% af heildarlosun Íslands. Þetta má lesa út úr gögnum sem UST sjálf er með á vef sínum ásamt gögnum frá Orkustofnun.

Það er rétt hjá UST að með fleiri bílum og aukinni umferð hefur losun gróðurhúsalofttegunda frá umferð aukist. Þetta hefur gerst þrátt fyrir að losun frá hverjum bíl (g CO2/km) hafi minnkað verulega frá aldamótum. Flestir aka nú um á mun sparneytnari bílum en fyrir 10 eða 20 árum og losun gróðurhúsalofttegunda er minni sem því nemur frá hverjum bíl. Engin ástæða er til að ætla annað en þessi þróun haldi áfram af fullum krafti á næstu árum nú þegar rafbílar eru að ná fótfestu þótt losun við framleiðslu rafbíla sé enn talsverð. Það er því ekki sanngjarnt að gefa í skyn að bíllinn mengi sífellt meira.

Það kemur heldur ekki á óvart að bílum fjölgi. Fólki hefur fjölgað á Íslandi, bæði Íslendingum sjálfum, erlendum ríkisborgunum sem hér búa og svo ferðamönnum. Mannfjöldi á Íslandi árið 2000 var 279 þúsund en er nú kominn í 357 þúsund. Erlendir ferðamenn (brottfarir erlendra farþega frá KEF) eru nú um tífalt fleiri en um aldamótin. Aukin losun frá umferð er því ekki til komin vegna illsku bíleigenda og skeytingarleysis þeirra um Jörðina heldur vegna þess að Ísland er gott land til búsetu og gott að sækja heim.

En hvernig stendur á því að UST segir losun frá vegasamgöngum vera 34% af heildarlosun þegar 6% er nær sanni? Það er vegna þess að UST tekur aðeins losun sem er hluti af „skuldbindingum Íslands í loftslagsmálum“ með í reikninginn. Í þessu skuldbingarbókhaldi er hvorki talin með losun frá landnotkun (framræstu landi) né millilandaflugi og -siglingum. UST virðist jafnvel ganga svo langt að sleppa hluta stóriðjunnar til að koma höggi á bílinn. Súluritið hér að neðan sýnir hvað gerist þegar UST sleppir stórum þáttum útblásturs til að hækka hlut bílsins.

Með því að sleppa stórum losunarþáttum á borð við landnotkun og millilandaflugi tekst UST að margfalda hlut bíla og fiskiskipa í losun Íslands.

Sala á þotueldsneyti á Íslandi var til að mynda meiri en á bílaeldsneyti undanfarin þrjú ár. Því er algerlega fráleitt að taka losun frá fluginu ekki með í reikninginn. Fjöldi ferðamanna á stærstan þátt í mikilli noktun þotueldsneytis. En nýlega var einnig sagt frá því að utanlandsferðum á vegum UST hafi fjölgað um meira en helming frá árinu 2015. Ferðatíðinin samsvarar því að sex daga vikunnar árið um kring sé starfsmaður stofnunarinnar í háloftunum vegna áríðandi fundar um hvernig bjarga megi heiminum. UST telur þessa losun frá utanferðum starfsmanna sinna ekki með í loftslagsbókhaldi Íslands!

Það skiptir auðvitað engu máli fyrir andrúmsloftið hvaðan losunin kemur eða hvort hún er færð til bókar í alþjóðlegum samningum um skuldbindingar einstakra landa. Öll losun hefur sömu áhrif. Einu gildir hvor hún er frá bíl með krakka á leið á æfingu. Þotu með sérfræðing á leið á loftslagsráðstefnu. Verksmiðju sem framleiðir ál í flugvélar. Eða framræstu landi. Alþjóðlegir samningar verða að styðjast við raunverulega losun en ekki valkvætt pólitískt bókhald af því tagi sem UST ber á borð fyrir landsmenn.