Ríkið greiðir 180 krónur fyrir innflutta kolefnisjöfnun bensíns – íslensk jöfnun fæst á 5 krónur

Furðuleg innleiðing á ESB reglum leiðir til innflutnings á endurnýjanlegri orku sem nóg er til af hér á landi.

Vegna orkutilskipana ESB er skylda að blanda orkusnauðu og dýru lífeldsneyti í bensín og Dieselolíu hér á landi. Ríkið niðurgreiðir innflutning á þessum íblöndunarefnum með 90 króna skattaívilnun á hvern lítra þeirra. Ríkissjóður eyðir um 1,5 milljarði króna í þetta á ári. Þær skatttekjur áttu upphaflega að fara í vegagerð. Með hertum reglum frá ESB sem innleiddar hafa verið í blindni og taka gildi í lok þessa árs gæti kostnaður ríkisins af þessu orðið yfir 2 milljarðar á ári.

Markmiðið með þessum reglum ESB er að draga úr losun frá vegasamgöngum um 6%. En samkvæmt Orkusetri eru einmitt 6% fólksbílaflota Íslendinga þegar komin á innlenda endurnýjanlega (raforku) eða endurnýtta (metan) orku. Ljóst má vera af bílasölu undanfarinna missera að þetta hlutfall mun hækka áfram. Ef innflutningur fólksbíla verður svipaður á þessu ári og því síðasta og raf- og tengitvinnbílar verða áfram um fjórðungur af sölunni mun heildarhlutfall fólksbíla sem ganga fyrir innlendri endurnýjanlegri orku fara yfir 7% í lok árs.

Íslendingar eru því að ná þessum markmiðum eftir sínum leiðum og með sinni orku. Ísland er heimsmethafinn í notkun endurnýjanlegrar orku á öllum sviðum með yfir 80% hlutfall. Á meðan er ESB í kjallaranum með um 17% sem er svipað hlutfall og Ísland hafði 1943! Ísland hefur því ekkert við þessa óhagkvæmu íblöndun frá ESB að gera og innleiðing reglna ætti að taka mið af því. Innleiðingin ætti að gera ráð fyrir að Ísland geti náð þessum markmiðum með sinni eigin endurnýjanlegu orku.

Innflutta lífeldsneytið er auk þess af jafnaði með lægra orkuinnihald en hefðbundið eldsneyti og leiðir til aukinnar eyðslu í bílvélum, fleiri ferða á bensínstöðvar og aukins innflutnings á eldsneyti.

Lífeldsneytið er kreist úr plöntum á borð við repju, maís og fleiri matjurtum ásamt pálmum sem ræktaðir eru á ruddum regnskógasvæðum.

Því er haldið fram að með framleiðslu lífeldsneytisins náist nokkur kolefnisjöfnun vegna þess koltvísýrings sem plönturnar taka til sín þegar þær vaxa. En vegna þess að ræktun og vinnsla á lífeldsneytinu hefur talsverða losun í för með sér næst aðeins um helmings kolefnisjöfnun á hverjum lítra. Kostnaðurinn við fulla kolefnisjöfnun á hverjum lítra lífeldsneytis er því um 180 krónur.

Kolviður býður fulla kolefnisjöfnun á bensínlítranum á tæpar 5 krónur. Votlendissjóður býður fulla kolefnisjöfnun á lítranum á um 12 krónur. Þetta ótrúlega hagstæða verð er því um 90% lægra en ríkið greiðir fyrir kolefnisjöfnun með innfluttu lífolíunni. Að því ógleymdu að þessi íslensku félög bæta um leið gæði landsins.