Ný tekjulind – að fá ekki starf

Litli bróðir fær líka smá pakka þegar stóri bróðir á afmæli. Umsækjendur um starf hjá ríkinu fá allir smá sárabætur þegar einn þeirra er ráðinn.

Nýverið hafa Reykjavíkurborg og ríkið samið um háar greiðslur við umsækjendur um starf borgarlögmanns og þjóðgarðsvarðar á Þingvöllum. Ekki þó um laun fyrir sjálft starfið heldur um milljónir í bætur fyrir að hafa ekki verið ráðnir til starfans. Í bæði skiptin hafði kærunefnd jafnréttismála talið að brotið hefði verið á umsækjendum.

Í bæði skiptin fór kærunefndin í algeran sparðatíning til að komast að niðurstöðu um brot. Annars vegar var eitthvað huglægt mat ekki skrifað nægilega niður. Hins vegar var of mikið sett á blað um hvor umsækjandi væri flinkari í Norðurlandamáli.

Borgarstjóri og borgarráð töldu umsækjanda sem fékk 37,05 sig í Excel hæfnisnefndar hæfari en hinn sem fékk 35,97 stig. Stigamunurinn er auðvitað svo lítill að ekkert er á honum byggjandi í raun. Flest stigin eru líka byggð að einhverju eða öllu leyti á huglægu mati. Menn geta nánast sett hvaða tölur sem er á blað. Kærunefndin taldi hins vegar þann með lægri einkunn hæfari. Borgarfulltrúi Pírata lýsti því í kjölfarið yfir að hann hefði tekið þátt í „valdníðslu“ með því að ráða umsækjandann sem hafði hærri einkunn. Ekki náðist í borgarstjóra.

Öllum má vera ljóst að búið er að gera ótrúlegan leikþátt úr ráðningum hjá hinu opinbera. Það er látið eins og hægt sé að slá því föstu með vísindalegri nákvæmni hver sé hæfastur úr stórum hópi umsækjenda til að gegna starfi. Á sviðið streyma sérfræðingar í hæfnisnefndum og ráðgjafafyrirtækjum. Umsækjendur eru settir í Excel-skjöl til að ljá leiknum faglegt yfirbragð. Þá sjaldan sem slík skjöl koma fyrir augu almennings reynast þau ævintýraleg hrákasmíð manna sem kunna hvorki á töflureikni né að leggja saman tölur.

Þegar allra handa sérfræðingar og fagmenn hafa fengið að leika sitt hlutverk er svo loks tekin ákvörðun. Hana tekur stjórnmálamaður sem til þess var kjörinn í lýðræðislegum kosningum og mun þurfa ólíkt öllum öðrum leikendum að mæta aftur fyrir kjósendur innan tíðar. Ráðgjafar og hæfnisnefndir stinga þóknunum í vasann og eru laus við alla ábyrgð. Stjórnmálamaðurinn hefur auðvitað sína sérfræðinga til ráðgjafar ofan á allt hitt. En þegar ákvörðun hefur loks verið tekin er ballið rétt að byrja.

Einu gildir hvort farið er að ráðum fagmannanna með töflureiknana. Vonsviknir umsækjendur heimta aukinn rökstuðning, meiri rannsókn, klagað er í umboðsmann, grenjað fyrir kærunefnd jafnréttismála, farið fyrir dóm og leitað á náðir Tyrkja og Albana í nefndum Evrópuráðsins. Allir sem skoða málin á þessum ríkiskontórum virðast hugsa með sér: „Þessi góði maður sem fékk ekki starfið gæti allt eins verið ég næst þegar ég sæki um stöðu.“ Nýstárlegar túlkanir á matskenndum stjórnsýslu- og jafnréttislögum verða til í álitum, úrskurðum, dómum og jafnvel samningum. Niðurstaðan: Skattgreiðendum ber að greiða bætur.

Kerfið hefur búið svo um hnútana að í hvert sinn sem nýr ríkisstarfsmaður er ráðinn til starfa fá a.m.k. tveir laun!