Þungur róður Thunberg

Greta Thunberg um borð í skútunni sem ferjaði hana til New York þar sem hún krafðist aðgerða gegn loftslagsbreytingum. Mynd: Shutterstock/lev radin.

Notkun jarðefnaeldsneytis, olíu, kola og gass, eykst ár frá ári í veröldinni. Útblástur gróðurhúsalofttegunda af manna völdum eykst þar með jafnt og þétt. Hlutur endurnýjanlegrar orku er enn mjög lítill á heimsvísu og langt frá því að halda í við hina árlegu auknu eftirspurn.

Eins og sjá má á myndinni hér að neðan er fjármálakreppan árið 2008 það eina sem slegið hefur örlítið á orkunotkunina undanfarin 25 ár. Þarna sést „Hrunið“ okkar kippa niður orkunotkun fólks um allan heim. Einhverjir þakka sjálfsagt fjórflokknum og stjórnarskránni fyrir þetta við tækifæri. En það er önnur saga.

Öfugt við Ísland reiðir heimurinn sig á að mestu leyti á orku frá olíu, kolum og gasi. Það hefur lítið breyst undanfarinn aldarfjórðung. BP Statistical Review of World Energy 2019.

Tillögurnar

Í vikunni ritaði hinn ágæti fyrrverandi þingmaður, Guðmundur Steingrímsson, grein í Fréttablaðið um fræga ræðu sem Greta Thunberg hélt um loftslagsmál á þingi Sameinuðu þjóðanna. Guðmundur hreifst af málflutningi hennar og nefnir greinina „Við erum sammála þér Greta.“ Fleiri hafa tekið í sama streng. Guðmundi láðist hins vegar að nefna þær mörgu og skilmerkilegu tillögur sem Thunberg hlýtur af hafa haft fram að færa til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda – og hann er svo sammála. Þetta hlaut að vera yfirsjón hjá Guðmundi. Sú sem grátklökk segir heimsbyggðinni að skammast sín fyrir aðgerðarleysi hlýtur að hafa tillögur á reiðum höndum. Þótt ekki væri nema eina.

En þegar hlýtt er á ræðu Thunberg og athyglinni beint frá dramatískum tilþrifum yfir í efnislegt innihald þá er niðurstaðan raunaleg. Hún hafði engar tillögur fram að færa. Vissulega heimtaði hún aðgerðir en nefndi samt engar tilteknar. Engar. Núll.

Hamfaramenn gegn grænni orku

Thunberg er vissulega vorkunn. Frá upphafi stórfelldrar hagnýtingar jarðefnaeldsneytis á 19. öld hafa menn leitað að öðrum orkugjafa sem gæti keppt af alvöru við olíuna, gasið og kolin. Í stórum dráttum hefur þessi leit gengið illa eins og þróunin hér á grafinu að ofan ber með sér. Því miður. Þetta er einkar sorglegt því orkan er þarna úti sem ljós frá sólinni. Það vantar bara að virkja það með nýrri aðferð og helst þannig að um leið sé kolefni hirt úr andrúmsloftinu eins og gróður Jarðar gerir.

Ísland er eitt fárra ríkja þar sem tekist hefur að virkja aðra orku en jarðefnaeldsneyti að einhverju marki enda njótum við gnægðar fallvatna og jarðvarma í fámennu landi. Hagnýting Íslendinga á þessum endurnýjanlegu orkulindum landsins hefur þó mætt mikilli andstöðu þeirra sem einmitt hafa tilnefnt sjálfa sig sem hina réttsýnu hvað varðar loftslagsbreytingar. Af hógværð sinni nefna þeir breytingarnar nú „hamfarahlýnunina“ svo fávís Jón og Gunna átti sig betur á alvöru málsins. Íslendingar mæta nú yfir 70% af orkuþörf sinni með endurnýjanlegum orkugjöfum. Í Evrópusambandinu er þetta hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa um 17% og stór hluti af því litla hlutfalli er fenginn með óhreinum bruna á skógarafurðum og öðrum lífmassa ásamt þeiri öfugsnúnu loftslagsaðgerð að brenna pálmaolíu og matjurtaeldsneyti í bílvélum. Því miður hafa Íslendingar tekið það síðastnefnda upp eftir Evrópusambandinu með milljarða kostnaði.

Æsingur og uppnám mun bara auka líkurnar á að stjórnmálamenn grípi til fleiri slíkra aðgerða sem hafa vond áhrif og sóun verðmæta í för með sér.

Thunberg er því vissulega ekki ein á báti. Það er almennt fátt um svör þegar spurt er hvernig mannkynið eigi að reisa, hita, kæla og lýsa upp húsin sín, komast leiðar sinnar og framleiða og flytja mat, lyf og aðrar lífsnauðsynjar til almennings ef ekki má nota þennan ódýrasta, aðgengilegasta og notadrýgsta orkugjafa sem í boði er. Sérstaklega spyr fólk sem er að brjótast úr örbirgð og varnarleysi gagnvart sjúkdómum og plágum hvort það megi ekki bæta líf sitt stórkostlega með því að hagnýta sér þessa orku sem létt hefur milljörðum annarra lífið. Sem aftur minnir á að þessi notkun er ekki endilega til marks um að menn séu „illmenni“ eins og Thunberg hélt skelfingu lostin fram í ræðu sinni.

Úr skóla í skiltagerð

Mörg ungmenni á Vesturlöndum hafa fylgt fordæmi Thunberg og skrópað í skólanum á föstudögum til að veifa kröfuspjöldum fyrir viljuga fjölmiðlana. Því miður segja spjöldin jafn lítið um það hvernig bregðast á við vandanum og málflutningur Thunberg. Á Austurvelli hafa skilaboð af þessu tagi verið áberandi: „Aðgerðir strax.“ „Það er engin pláneta B.“ „Það er aðeins ein Jörð.“ „Tíminn er á þrotum.“  „Verkfall fyrir loftslagið.“ „Gerum þetta.“ „Föstudagur fyrir framtíðina.“ „Lýsum yfir neyðarástandi.“

Kannski misstu ungmennin af kennslustund um orkunotkun mannsins. Kannski hafa þau ekki heyrt um félaga sína um víða veröld sem hafa ekki ljós til að lesa við, eldavél til að hita matinn eða bíl til að komast til læknis í næsta þorpi. Kannski hefðu þau gott af því að læra um og bera lífsskilyrði mannsins í árdaga olíuvinnslu saman við hagsældina sem hann nýtur í dag.

Til dæmis er það merkilegt að fyrir 100 árum fórst um hálf milljón manna á ári vegna veðurtengdra atburða á borð við ofsaveður, flóð og þurrka. Þrátt fyrir mikla fólksfjögun síðan og mikinn fréttaflutning undanfarið af auknum öfgum í veðri er þessi tala nú komin niður í 20 þúsund á ári. Það er lækkun um 96%.

Á síðunni Our World in Data má einnig finna nokkrar skýrar myndir sem sýna þróun lífsskilyrða mannsins. Þar má sjá þróun fátæktar, barnadauða, lýðræðis og já einmitt læsis og skólagöngu sem nútímamenn taka sem svo sjálfgefnum gæðum að kröfugöngur eru að ástæðulausu látnar bitna á skólastarfi.  

Þessir þættir gefa nokkuð glögga mynd af hag mannsins. Og þeir eru allir á sömu leið. Sífellt stærri hluti mannskyns brýst úr fátækt og barnadauða til hagsældar, menntunar og lýðræðis. Við getum því óhikað fagnað hverjum nýjum einstaklingi. Enginn hefur átt bjartari framtíð en þeir sem fæðast í dag. Þar með aukast möguleikar og geta okkar til að takast á við neikvæðar afleiðingar loftslagsbreytinga. En síðast en ekki síst getum við með hverjum nýjum einstaklingi, sem býr við svo góðar aðstæður til að mennta sig og finna kröftum sínum farveg, vænst þess að ný leið finnist til að mæta orkuþörf mannsins.