Siðapostuli brýtur siðareglur

Fyrr í vikunni vildu Píratar varpa þingmanni Samfylkingar fyrir siðanefnd Alþingis. En nú telja Píratar skyndilega að siðanefndin sé algerlega ómarktæk.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir alþingismaður Pírata braut gegn tveimur greinum í siðareglum Alþingis. Þetta er niðurstaða svonefndrar siðanefndar Alþingis sem er óþörf nefnd sérfræðinga sem forsætisnefnd Alþingis hefur sér til ráðgjafar um enn óþarfari siðareglur þingsins. Þórhildur Sunna er fyrsti þingmaðurinn sem fær slíkan vitnisburð frá siðanefndinni.

adsugurinnÞetta er sérlega áhugavert því enginn stjórnmálaflokkur hefur gengið jafn hart fram í því að saka aðra flokka um siðleysi og spillingu en einmitt Píratar. Þórhildur Sunna er þar fremst meðal jafningja. Nýlega settu Þórhildur og Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata til að mynda upp svartar húfur og gerðu einhvers konar aðsúg að þingmanni annars flokks í ræðustól Alþingis þar sem þau töldu þingmanninn ekki uppfylla siðferðiskröfur sínar.

Hingað til hefur það verið mat Pírata að stjórnsýslan, sérfræðingar, úrskurðarnefndirnar, kærunefndirnar, hafi alltaf rétt fyrir að en kjörnir fulltrúar alltaf rangt fyrir sér, því stjórnmálamenn (aðrir en Píratar sjálfir) hafi alltaf annarlega sjónarmið en fræðingar séu alltaf hreinir og beinir.

En nú hafa Píratar skyndilega bilað í trúnni á sérfræðingana. Og hvers vegna skyldi það vera? Jú vegna þess að þessi ein sérfræðinganefndin, siðanefnd Alþingis, hefur komist að þeirri niðurstöðu að Þórhildur Sunna hafi brotið siðareglur Alþingis með því að bera annan þingmann þungum sökum um refisvert athæfi.

Það er mat siðanefndar að órökstuddar aðdróttanir af hálfu þingmanna um refsiverða háttsemi annarra þingmanna sé til þess fallið að kasta rýrð á Alþingi og skaða ímynd þess. Slíkt hefur óneitanlega neikvæð áhrif á traust almennings til Alþingis.

Fyrir nokkrum dögum lögðu Píratar hins vegar hart að forsætisnefnd Alþingis að vísa máli þingmanns Samfylkingarinnar til siðanefndarinnar. Þingmaður Samfylkingarinnar hefur þó undanbragðalaust viðurkennt og beðist margsinns afsökunar á framkomu sinni við konu á skrifstofu Kjarnans. Hann tók sér jafnvel leyfi frá þingstörfum vegna málsins. Hverju ætti siðanefndin að bæta við það?

skammastsinEn nú segja Píratar að siðanefndin, sem þeir heimtuðu að siðaði iðrandi þingmann Samfylkingarinnar, „skapi hættulegt fordæmi“ og hafi „lagt rangt mat á“ aðdróttanir Þórhildar Sunnu. Sjálf réttlætir hún svigurmælin svo álit siðanefndarinnar hefur engin áhrif á gerandann.

Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður Pírata segist í viðtali við Morgunblaðið ekki vera sammála siðanefndinni og þingflokkur Pírata beri fullt traust til þingmannsins sem braut siðareglurnar.

Líklega er framtíðin okkar ekki komin.