Bílar með 6% útblásturs en bera 90% útblástursskattanna

Bíleigendur bera aðeins ábyrgð á um 6% losunar gróðurhúsalofttegunda á Íslandi en eru látnir greiða tæp 90% þeirra losunartengdu skatta sem hér eru innheimtir.

Upplýsingar um losunina má lesa úr skýrslu Umhverfisstofnunar um losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi árið 2017, að viðbættri losun frá millilandaflugi áætlaðri út frá þotueldsneytissölu hér á landi. Losun millilandaflugs er ekki talin með í skýrslum stofnunarinnar.

Ríkið innheimtir árlega um 18,5 milljarða króna í CO2 losunartengdum sköttum. Þar af greiða bíleigendur 16,6 milljarða.

Þessi árlegu losunartengdu gjöld eru (fjárlög 2018):

Kolefnisgjald af eldsneyti til ökutækja og skipa: 5.580 milljónir.

Bifreiðagjald: 7.450 milljónir en þar af eru um 5.000 milljónir tengdar kolefnislosun.

Vörugjöld af ökutækjum: 7.900 milljónir.

Það eru engir að greiða þessi losunargjöld nema bíleigendur og sjávarútvegurinn.

losunco2_2017Bíleigendur greiða allt bifreiðagjaldið, allt vörugjaldið af ökutækjum og um 2/3 af kolefnisgjaldinu. Sjávarútvegurinn greiðir svo restina (1/3) af kolefnisgjaldinu. Losunin frá sjárvarútveginum er um 3,5% af heildarlosuninni. Sjávarútvegurinn er því eins og bíleigendur látinn bera kolefnisgjöld langt umfram hlut hans í losuninni.

Ofan á kolefnisgjaldið og vörugjöldin bætist svo virðisaukaskattur sem venjulegir bíleigendur bera að fullu. Þar eru að minnsta kosti 2 milljarðar í losunartengda skatta í viðbót.

Hér ræðst því ríkið af miklu offorsi á þær tvær greinar sem bera einna minnsta ábyrgð á losun gróðurhúsalofttegunda. Bíleigendur og útgerðin eru með tæp 10% losunar er greiða 100% losunarskattanna. Þetta eru einnig þær greinar sem minnst þurfa á slíkri grænni skattheimtu að halda. Útgerðin hefur minnkað olíunotkun um 30% frá 1990 og daglega koma af færiböndunum nýir bílar sem eru sparneytnari en áður eða ganga fyrir nýjum orkugjöfum.

Það er sömuleiðis alltaf spurning hvaða áhrif svona græn skattlagning á bíleigendur hefur í raun. Seinkar hún því ef til vill að bíleigendur telji sig hafa efni á að skipta yfir í nýja – og sparneytnari – bíla?

Þeir sem bera hins vegar ábyrgð á 90% losunarinnar hér á landi greiða hins vegar enga „græna“ skatta af sínum útblæstri.

Þetta fyrirkomulag var leitt í lög í tíð „hreinu“ vinstri stjórnarinnar 2009 – 2013. Sömu stjórnar og veitti kolabræðslunni á Bakka ekki aðeins undanþágu frá þessum „grænu“ sköttum heldur ýmis önnur skattfríðindi og aðra ríkisstyrki.

Ekki hefur verið hnikað við þessu síðan nema til að hækka kolefnisgjaldið.