Jöfnustu tekjur í OECD og jöfnustu eignir á Norðurlöndum

tekjujofnudur_oecd_mbl12102017Hagur manna er hvergi jafnari en á Íslandi. Þetta dylst engum eftir lestur á grein Halldórs Benjamíns Þorbergssonar framkvæmdastjóra SA í Morgunblaðinu í dag.

Þar fer hann yfir fjórar bábiljur sem oft er kastað fram í umræðunni hér á landi.

Bábilja 1 – Ójöfnuður tekna er mikill á Íslandi. Þetta er rangt þar sem tekjujöfnuður er hvergi meiri innan OECD landa.

Bábilja 2 – Ójöfnuður tekna hefur farið vaxandi á Íslandi. Þetta er einnig rangt eins og tölur Hagstofunnar sem Halldór leggur fram sýna. Það hefur dregið saman með þeim sem minnstar og mestar tekjur hafa.

Bábilja 3 – Ójöfnuður eigna er mikill á Íslandi. Þetta er sömuleiðis rangt því samanburður við Norðurlöndin leiðir í ljós að eignadreifing er jöfnust á Íslandi.

Bábilja 4 – Ójöfnuður eigna hefur farið vaxandi á Íslandi. Halldór bendir á að jöfnuður eigna sé nú meiri en hann hafi að meðaltali verið síðustu 20 ár.

Þegar á þetta er litið ásamt þeim efnahagslega stöðugleika, lágri verðbólgu, nægri atvinnu og vaxandi kaupmætti sem hér hefur verið undanfarin ár er vinstri flokkunum vissulega vandi á höndum. Um hvað eiga þeir að tala þegar hagur Íslendinga er svo jafn og batnandi?