Framræst land er langstærsta uppspretta gróðurhúsalofttegunda á Íslandi

Votlendi er stærsta kolefnisgeymsla Jarðar á landi. Þegar votlendi er ræst fram losnar kolefnið út í andrúmsloftið.

Þegar vatni er veitt burt úr mýrum og öðru votlendi kemst súrefni andrúmsloftsins að þeim lífmassa sem safnast hefur í blautan og súrefnissnauðan jarðveginn um aldir. Þegar súrefnið gengur í samband við kolefni og köfnunarefni verður til mikið magn gróðurhúsalofttegundanna CO2 og N20.

Í nýlegu myndbandi segir Gunnhildur Eva Gunnarsdóttir sérfræðingur við Landbúnaðarháskólann frá nýrri rannsókn sinni á framræstu landi. Rannsóknin rennir stoðum undir það sem bæði innlendar og erlendar rannsóknir hafa áður gefið til kynna að langstærsti hluti losunar gróðurhúsalofttegunda á Íslandi er frá framræstu landi.

Íslenska ríkið styrkti landeigendur áratugum saman til að grafa framræsluskurði og þegar yfir lauk höfðu verið grafnir skurðir sem eru samtals yfir 30 þúsund km að lengd eða sem samsvarar 25 hringjum í kringum landið á þjóðvegi 1. Aðeins um 15% af þessu framræsta landi er nýtt sem ræktarland.

Hin ofboðslega losun sem fylgir þessum ríkisstyrkta hernaði gegn landinu, eins og Halldór Kiljan Laxness nefndi framræsluna í frægri blaðagrein árið 1970, var ekki sett í samhengi við aðra losun fyrr en svör fengust við fyrirspurnum þingmanns Sjálfstæðisflokksins þess efnis á alþingi fyrir tveimur árum.

Þá kom í ljós að framræsta landið er með um 72% af árlegri losun hér á landi en til samanburðar er einkabíllinn með um 4% og útgerðin með 3%.

utblasturco2_2012-494px

Íslendingar komu því til leiðar árið 2013 að endurheimt votlendis telst svonefnd mótvægisaðgerð innan loftslagssamnings og getur því talist til árangurs Íslands á þessu sviði og þar með talist með í svonefndu loftslagsbókhaldi landsins. Þarna eru því veruleg tækifæri fyrir landeigendur til að efna til samstarfs við fyrirtæki sem vilja kolefnisjafna starfsemi sína eða jafnvel styrkja endurheimt votlendis í stað kaupa á losunarkvótum. Þegar eru vísar að slíku samstarfi.