Aðeins fimmtungur raforku á Íslandi er talinn „endurnýjanlegur“ samkvæmt nýjustu yfirlýsingu Orkustofnunar um uppruna raforkunnar hér á landi.
Ástæðan fyrir þessu er sú að íslensku orkufyrirtækin selja svonefndar upprunaábyrgðir raforku til annarra landa Evrópu. Þannig geta evrópsk fyrirtæki sem nota orku sem framleidd er með kolabruna og kjarnahvörfum fullyrt að þau noti „endurnýjanlega“ orku úr íslenskum hverum og fallvötnum. Á móti sitja íslenskir raforkunotendur uppi með „óendurnýjanlega“ orku.
Af þessum sökum gefur Orkustofnun út losun gróðurhúsalofttegunda og kjarnorkuúrgangs frá raforkunni sem notkun raftækja á borð við rafbíla á Íslandi hefur í för með sér. Samkvæmt útreikningum Orkustofnunar um útblástur koldíoxíðs (CO2) frá íslenska raforkukerfinu er losunin 460 gCO2/kWh.
Og hvað þýðir það?
Orkunotkun lítilla rafbíla í blönduðum akstri er um 0,2 kWh/km.
Losun koldíoxíðs frá slíkum rafbíl sem stungið er í samband á Íslandi er því 94 gCO2/km.
Til samanburðar má nefna að uppgefin útblástur frá Nissan Micra Diesel- og bensínbílum er á svipuðu róli (85 – 99 gCO2/km).
Að auki hefur notkun rafbílsins í för með sér losun á geislavirkum úrgangi samkvæmt yfirlýsingu Orkustofnunar.
Rafbílar njóta skattaívilnana af söluverði sem geta hlaupið á milljónum króna fyrir hvern bíl. Þeir njóta afsláttar af bireiðagjöldum. Þar við bætist að eigendur rafbíla leggja ekkert til vegagerðar eins og eigendur annarra bíla sem greiða yfir 100 þúsund krónur á ári (m.v. 15 þúsund km akstur og 10L/100km eyðslu) í sérstaka eldsneytisskatta. Rafbílaeigendur aka þannig um vegi landsins í boði annarra bíleigenda.
En var þessi mismunun ekki réttlætt með því að rafbílar gengju fyrir endurnýjanlegri orku og gæfu frá sér minna af gróðurhúsalofttegundum en aðrir bílar?