Ná „hjólreiðavinir, aldraðir, sköllóttir“ inn manni?

Er klofningur íslenskra vinstrimanna góð ástæða til að fjölga borgarfulltrúum úr 15 í 23?

Í tíð vinstri stjórnarinnar voru samþykkt lög sem skylda Reykjavík til að fjölga borgarfulltrúum um að minnsta kosti helming við næstu kosningar, vorið 2018.

Eitt þeirra mála sem náði ekki fram að ganga á vorþingi var frumvarp Jóns Gunnarssonar sveitarstjórnarráðherra sem hefði fellt þessa kvöð niður og sett það í hendur borgarstjórnar sjálfrar hvort ástæða væri til svo rausnarlegrar fjölgunar kjörinna fulltrúa. Þar með væri ábyrgðin á því jafnframt borgarstjórnar og kjósendur gætu tekið mið af því þegar þeir velja sér borgarfulltrúa í kosningum.

Í fyrstu umræðu um frumvarp Jóns á þingi kvaddi Steingrímur J. Sigfússon þingmaður VG sér hljóðs og hallmælti frumvarpinu mjög. Hann sagði meðal annars:

Fagna því ef að grasrótarsamtök bjóða fram krafta sína í þessa samfélagsþjónustu, ef að hjólreiðavinir, aldraðir, sköllóttir, hverjir sem það eru, kjósa að bjóða fram sín baráttumál, og því tekið fagnandi, og það er lægri þröskuldur og við fáum breiðari og fjölbreyttari sveitarstjórnir eftir því sem þær eru fjölskipaðri að þessu leyti.

Hér birtist tilgangur vinstri stjórnarinnar með þessu lagaboði um fjölgun borgarfulltrúa ágætlega. Vegna þess að í hvert sinn sem tveir vinstri menn koma saman til skrafs og ráðagerða verða til þrír flokkar er nauðsynlegt að fjölga borgarfulltrúum nægilega til að hvert flokksbrot þeirra eigi möguleika á að ná manni kjörnum. Við fjölgun borgarfulltrúa úr 15 í 23, sem er lágmarksfjölgunin fyrir Reykjavík samkvæmt lögum vinstri stjórnarinnar, má almennt gera ráð fyrir að fylgið sem þarf til að fulltrúi sköllóttra nái kjöri lækki úr 6% niður í um 4% eða jafnvel neðar ef nægilega mörg framboð mæta til leiks. Ekki er að efa að ýmsir þrýstihópar munu hugsa sér gott til glóðarinnar að ná inn einum manni og jafnvel oddastöðu.