Útlendingar greiði hér sömu skatta og Íslendingar

Hvers vegna ættu Íslendingar að greiða háa skatta svo erlendir ferðamenn geti notið lágra? Hvers vegna eiga aðrar atvinnugreinar að greiða skattana fyrir ferðaþjónustuna?

Til stendur að lækka almennt þrep virðisaukaskatts úr 24% í 22,5%. Takist það verður almenna þrepið lægra en það hefur nokkru sinni verið frá upptöku virðisaukaskattsins fyrir rúmum aldarfjórðungi. Samhliða verður undanþágum frá almenna skattinum fækkað. Verð á flestum neysluvörum Íslendinga mun lækka við þessar breytingar og ætti það að leiða til lækkunar á vísitölu neysluverðs og þar með lækkunar á verðtryggðum lánum.

Þessar tillögur er að finna í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára og eiga þær að taka gildi á næsta og þar næsta ári. Það er gott að breytingar á skattkerfinu séu kynntar með svo góðum fyrirvara, ekki síst íþyngjandi breytingar fyrir þá sem fá ekki lengur undanþágu frá almenna þrepinu.

Við það að undanþágum frá almenna þrepinu fækkar mun virðisaukaskattur á gistingu og annarri þjónustu við ferðamenn til að mynda hækka úr 11% í 22,5%.

Yfirgnæfandi hluti gistingar hér á landi er nýttur af útlendingum, erlendum ferðamönnum. Samkvæmt upplýsingaritinu „Ferðaþjónusta á Íslandi í tölum“ nýttu útlendingar 86% gistinótta árið 2015 og með mikilli fjölgun erlendra ferðamanna á árunum 2016 og 2017 er líklegt að hlutur þeirra sé nú kominn yfir 90%.

Spyrja má hvers vegna útlendingar eigi ekki að greiða virðisaukaskatt eins og innfæddir af þeirri þjónustu sem þeir nýta á meðan dvöl þeirra stendur hér á landi.

Það er heldur ekki í anda almenns jafnræðis fyrir lögum að ferðaþjónustufyrirtæki búi við betri skattakjör en önnur fyrirtæki í landinu sem keppa við þau um starfsmenn, húsakost og viðskiptavini. Hvers vegna eiga aðrar atvinnugreinar og viðskiptavinir þeirra að greiða skattana fyrir ferðaþjónustuna og viðskiptavini hennar?

Hins vegar er alltaf hætt við að ríkissjóður noti kerfisbreytingar af þessu tagi til að næla sér í stærri sneið af kökunni en áður. Í þessu tilviki virðist sem óhætt væri að lækka almenna þrepið meira en niður í 22,5% án þess að ríkið yrði af tekjum.

Það var auðvitað engin tilviljun að almenni virðisaukaskatturinn lækkaði aldrei á árunum 1990 til 2015. Til þess voru of margar undanþágur frá honum. Á meðan margir njóta undanþágu frá skatti verður erfitt að ná samstöðu um að lækka hann. Þeir sem njóta undanþágu munu leggjast gegn slíkri lækkun því það dregur úr hinu óréttláta samkeppnisforskoti sem undanþágan færir þeim. Samtök ferðaþjónustunnar eru ber að þessu nú um stundir. Þegar eru merki um að fjölmiðlar, sem einnig eru undanþegnir hinum almenna skatti, beiti sér gegn þessum breytingum með ferðaþjónustunni, án þess þó að geta þeirra hagsmuna sem þeir hafa sjálfir af undanþágunni.

Um leið og ferðaþjónustan fer í almenna þrepið mun hún vonandi leggjast á árarnar með öðrum um að almenna þrepið verði lækkað frekar.