Spara rafbílar gjaldeyri?

Hvort kostar meiri gjaldeyri að kaupa annars vegar rafbíl eða hins vegar bensínbíl og bensín til landsins?

Það er mikið hagsmunamál fyrir bíleigendur að á markaðinn komi bílar sem geta keppt á jafnréttisgrundvelli við bensínbílinn. Margt bendir til að rafbílar geti náð þeim áfanga innan tíðar þótt enn séu þeir dýrari og komist skemur án áfyllingar en bensínbílar. Þá hjálpar það heldur ekki til við rafbílavæðinguna að íslensku raforkufyrirtækin hafa selt úr landi réttinn til að kalla rafmagnið á bílana grænt og endurnýjanlegt.

Neytendur eru því enn mjög hikandi við að kaupa rafbíla þótt rafbílar njóti skattaívilnana af söluverði sem geta hlaupið á milljónum króna fyrir hvern bíl. Eigendur rafbíla njóta einnig afsláttar af bifreiðagjöldum. Þar við bætist að eigendur rafbíla leggja ekkert til vegagerðar eins og eigendur annarra bíla sem greiða stórfé í sérstaka eldsneytisskatta.

En þótt rafbílar séu mun dýrari en bensínbílar í innkaupum er því gjarnan haldið fram að rafbílar „spari gjaldeyri“ þar sem ekki þurfi að flytja inn eldsneyti á þá. Þetta hljómar auðvitað trúlega án skoðunar því eldsneyti er mjög dýrt hér á landi. En hið háa verð á eldsneyti er einkum vegna skattlagningarinnar. Innkaupsverð eldsneytis (heimsmarkaðsverð) er aðeins um fjórðungur af útsöluverði þess hér á landi eða aðeins tæpar 50 krónur á lítrann.

Ef miðað er við að innkaupsverðið sé 50 kr/L þá eru gjaldeyrisútgjöldin fyrir bensínbíl sem eyðir 8 L/100km og er ekið 15 þúsund km á ári um 60 þúsund krónur á ári.

Þessi gjaldeyrisútgjöld bensínbílsins þarf að skoða í samhengi við háan innkaupskostnað á rafbílum, vilji menn fá raunhæft mat á því hvort rafbílar „spari gjaldeyri“ eins og staðan er í dag.

Sem dæmi má nefna að Nissan Leaf kostar um 3,3 milljónir króna í Bandaríkjunum en sambærilegir bensínbílar eins og Nissan Versa allt niður í 1,3 milljónir króna. Nú er innkaupsverð beggja þessara bíla sjálfsagt eitthvað lægra en þessar tölur frá Bandaríkjunum gefa til kynna en gróflega má gera ráð fyrir að þessi vinsælasti rafbíll í heimi sé 1,5 milljónum dýrari í innkaupum en sambærilegur bensínbíll.

Valið stendur því á milli þess að spara í upphafi 1,5 milljónir króna í erlendum gjaldeyri með kaupum á ódýrum bensínbíl eða spara árlega 60 þúsund krónur í bensínkostnað með kaupum á dýrum rafbíl.

Þetta dæmi bendir ekki til að rafbílar „spari gjaldeyri“ eins og sakir standa. Þvert á móti. Á meðan rafbílar eru svo miklu dýrari en bensínbílar í innkaupum til landsins virðist verulegt gjaldeyristap af innflutningi þeirra.

Vonandi lækka rafbílar hratt í verði á næstu árum svo þeir geti jafnvel keppt við aðra bíla án stórfelldra skattaívilnana og þá um leið byrjað að spara Íslendingum gjaldeyrinn.