Tíminn líður

Vefþjóðviljinn 24. tbl. 21. árg.

Sagt er að vika sé „langur tími í pólitík“. Með því er átt við að í stjórnmálum geti veður skipast svo skjótt í lofti að á fáum dögum sé „allt breytt“, þótt enginn hafi séð neitt af því fyrir. En hversu löng sem vika getur reynst má sjálfsagt rökstyðja að tuttugu ár séu rúmlega þúsund sinnum lengri tími. Gætu menn horfið tuttugu ár aftur í tímann myndu þeir taka eftir aðeins öðruvísi þjóðlífi en nú, hvort sem er á Íslandi eða annars staðar.

  • Í Bretlandi sat við völd forsætisráðherrann John Major. Hann glímdi oft við efnilegan og skeleggan mann, Tony Blair, sem vinstrimenn bjuggust við miklu af.
  • Á Íslandi sat Friðrik Sophusson í fjármálaráðuneytinu. Enn var meira en ár í að Geir Haarde tæki sæti í ríkisstjórn sem ráðherra.
  • Af þeim 63 einstaklingum sem nú sitja á Alþingi var aðeins 1 kominn þangað. 62 af 63 höfðu ekki verið kjörnir á þing.
  • Fjórtán núverandi alþingismenn voru vegna aldurs ekki komnir með kosningarétt.
  • Núverandi ráðherra ferðamála var níu ára gömul. Núverandi umhverfisráðherra var þrettán ára.
  • Þjóðvegur 1 lá fyrir Hvalfjörð en ekki undir hann.
  • Fréttavefurinn mbl.is var ekki til. Visir.is ekki heldur.
  • Sá sem hefði farið á bókasafn og beðið um nýjustu sakamálasögu Arnaldar Indriðasonar hefði mætt skilningslausum bókaverði. Engin slík bók hafði komið út.
  • Á morgnana fékk fólk inn um lúguna þau blöð sem það var áskrifendur að. Daglegum fríblöðum var ekki dreift heim til fólks.
  • Sá sem vildi ganga í Samfylkinguna gat það ekki, því hún var ekki til.
  • Það sem verra var, sá sem vildi ganga úr Samfylkingunni gat það ekki heldur, af sömu ástæðu.

Margt er nú ólíkt því sem var fyrir tuttugu árum. En sumt er óbreytt. Á sama tíma og allt það sem hérna var talið upp átti við, gátu menn huggað sig við að Vefþjóðviljinn kom út og fór hófsamlegum orðum um menn og málefni. Útgáfa blaðsins hófst 24. janúar 1997 og hefur það síðan komið út á hverjum einasta degi, óháð veðri, helgidögum og viðtökum lesenda sinna. Er blaðinu þó hlýtt til lesenda sinna og þakklátt þeim fyrir margt. Síðustu tuttugu árin hafa fjölmargir lesendur haft samband við blaðið, hvort sem þeir hafa viljað þakka fyrir útgáfuna, ræða pistil dagsins eða bara koma því skorinort á framfæri hversu nauðsynlegt sé að útgáfunni verði þegar í stað hætt. Allir þessir lesendur hafa átt sinn þátt í því að sannfæra Andríki um mikilvægi útgáfunnar.

Þá eru ekki heldur gleymdir þeir fjölmörgu sem hafa styrkt útgefandann með reglulegum eða stökum fjárframlögum. Það er æði veglegur hópur sem það hefur gert, nær eingöngu einstaklingar og flestir félaginu ókunnir áður, og hefur kostnaður af útgáfunni og öðrum framkvæmdum Andríkis verið greiddur af slíku styrktarfé. Félagið hefur meðal annars gefið út bækur og kostað gerð skoðanakannana og hefði hvorugt verið mögulegt án styrktarmanna félagsins.

Varla fer hjá því að þeir sem lengi hafa lesið blaðið fari nærri um ritstjórnarstefnu þess. Hér hefur verið talað fyrir frelsi einstaklingsins. Vefþjóðviljinn hefur í tuttugu ár barist fyrir því að hinn almenni maður verði virtur þess að fá að taka sem allra flestar ákvarðanir um eigið líf, svo lengi sem hann brýtur ekki gegn rétti annarra. Hið opinbera eigi hvorki að líta á borgarana sem smábörn né á sjálft sig sem barnfóstru. Í réttinum til þess að taka fyrir sjálfan sig ákvarðanir, sem stórum hluta samborgaranna kann að þykja rangar, felist stór þáttur þess að vera frjáls maður. Hvort sem ákvarðanirnar snúast um að borða óholla fæðu, hjóla án hjálms, reykja vindil, klæða sig ekki eftir veðri, læra hagfræði, fara í gleðigönguna, fara ekki í gleðigönguna, hætta í sálfræðinni eða veðja aleiguni á að Leicester verði Englandsmeistari í fótbolta, eigi hver maður að fá að taka þær sjálfur.

Mörgum er auðvelt að samþykkja í almennum orðum að slíkum málum eigi hver maður að ráða sjálfur en ekki hið opinbera. En merkilega oft reynist afstaða þeirra önnur þegar raunverulega reynir á einstök mál. Margir reyndust til dæmis taka afstöðu til þess, hvort veitingahúsaeigendur mættu leyfa tóbaksreykingar á eigin veitingastað, eftir því hvernig þeim sjálfum féll reykurinn. Reykingamaðurinn vildi fá að reykja eftir matinn, sá reyklausi vildi ekki finna tóbakslykt af jakkanum sínum daginn eftir nótt á barnum. Færri veltu fyrir sér rétti veitingahúsaeigandans til að setja sjálfur húsreglurnar og taka sjálfur áhættuna af því hvort viðskiptavinir kæmu. Mjög marga skipti engu máli að enginn er neyddur inn á veitingahús og að sá sem fer inn á veitingahús, þar sem hann veit að er reykt, hefur þar með samþykkt að vera um stund í reyknum. Mörgum fannst bara sjálfsagt að þingmenn réðu því hvort veitingamenn leyfðu reykingar á veitingastaðnum sínum.

Þetta er lítið dæmi um málefni sem Vefþjóðviljanum hefur frá upphafi þótt mikilvægt. Ekki reykingabann á veitingahúsum í sjálfu sér, heldur afstaðan til ríkis og einstaklinga sem býr að baki. Sá sem virðir rétt annars manns til að taka ákvörðun í eigin lífi, er ekki endilega ánægður með þá ákvörðun sem maðurinn tekur. Rétt eins og sá sem vill ekki að skattgreiðendur séu látnir greiða fyrir einhverja starfsemi þarf ekki að hafa neitt á móti starfseminni. Menn geta verið miklir áhugamenn um ballett án þess að vilja að ríkið reki ballettflokk.

Annað sem blaðið hefur oft minnst á eru viðhorfin til skattheimtu af borgurunum. Frjálslynt fólk lítur ekki á skattborgarana sem gróðalind ríkisins. Fyrir því er skattalækkun ekki fyrst og fremst „tekjutap“ ríkisins. Með hverri krónu sem tekin er í skatt fækkar krónunum í vösum skattgreiðenda. Skattalækkun þýðir að hið opinbera fer aðeins grynnra í vasa skattgreiðenda með krumluna. Fólk fær að halda aðeins meira eftir af því fé sem það hefur unnið sér inn. Þess vegna spyr frjálslynt fólk, þegar lagt er til að ríki eða sveitarfélög veiti fé til einstakra málefna, hvort málefnið sé í raun svo brýnt að réttlætanlegt sé að taka fé frá fólki sem vann sér það inn, til þess að borga reikninginn. Er þetta málefni svo brýnt að það réttlæti skattahækkun? Ef málefnið réttlætir ekki skattahækkun, getur það þá réttlætt að skattur verði ekki lækkaður sem útgjöldunum nemur? Mætti ekki hætta við opinbera verkefnið og um leið við skattheimtuna sem það kallar á?

Vefþjóðviljinn hefur barist gegn mörgum opinberum aðgerðum. Skattahækkunum, bannreglum, nýjum útgjöldum og ótal öðrum. Þótt einstök mál hafi þannig oft verið í forgrunni hefur hugarfarið á bak við aðgerðirnar iðulega verið það sem mikilvægast hefur verið að berjast gegn. Barátta gegn sykurskatti er auðvitað barátta gegn tiltekinni skattahækkun, en hún er ekki síður hluti af baráttunni sem stendur um ríkið og einstaklinginn.

Ríkið og einstaklingurinn. Þar takast stjórnlyndir og frjálslyndir á, í hverju málinu á fætur öðru. Nær engir í hópi hinna stjórnlyndu segja upphátt að þeir vilji leggja allt undir ríkið, vilji gera hvern einstakling að nafnlausu númeri sem ríkið hugsar fyrir, að ósjálfráða tannhjóli í gangverki hins opinbera. Og það sem meira er, fæstir hinna stjórnlyndu í vestrænu þjóðfélagi nútímans segðu ósatt þótt þeir segðust alls ekki hafa slíkt lokamarkmið. En þeir stjórnlyndu hætta aldrei. Það þarf alltaf nýja reglu. Það þarf alltaf að hugsa fyrir borgarann á nýju og nýju sviði. Einn daginn sykurskattur. Annan daginn hjálmur þegar borgarinn hjólar. Næsta dag ákveður ríkið hvernig eigendur fyrirtækja velja í stjórn þess. Einn daginn er gert að skyldu að áberandi verðmiði sé við allar vörur í búðum, þótt enginn sé neyddur til að kaupa ómerkta vöru. Reglugerðir eru settar sem ákveða í sífellt nákvæmari smáatriðum hvernig hús fólk má byggja sér. Svo eru skattarnir hækkaðir sem þýðir að ríki og sveitarfélög ráðstafa stærri og stærri hluta eigna og tekna borgaranna.

Þeir stjórnlyndu finna sífellt nýtt og nýtt svið þar sem hægt er að setja reglu. Ala fólk upp. Skipa fyrir. Banna. Vernda fólk fyrir mistökum. Því fleiri slíkar reglur sem eru settar, því fleiri venjast því að hið opinbera hugsi fyrir þá. Fari nokkuð úrskeiðis er það vegna þess að reglu hefur vantað eða eftirlit með reglunni brugðist. Allt kallar það á fleiri reglur og meira eftirlit.

Við hvert skref sem stigið er í átt til stjórnlyndis stækkar hið opinbera en einstaklingurinn smækkar. Eftir því sem tíminn líður og stjórnlyndið eykst, verða áhrifin af þessu á hugsunarhátt fólks meiri.

Það hefur verið stór hluti af erindi þessa rits við lesendur sína að andmæla þessu aukna stjórnlyndi.

En svo hefur auðvitað verið mörg önnur barátta sem þetta rit hefur tekið svolítinn þátt í. Vinstristjórnarárin 2009 til 2013 færðu landsmönnum mörg mál sem hefðu getað orðið mjög afdrifarík. Þrívegis var samningur um Icesave samþykktur á Alþingi. Meirihluti Alþingis ákvað, þvert gegn loforðum annars stjórnarflokksins, að Ísland skyldi sækja um aðild að Evrópusambandinu. Til viðbótar var reynt að knýja fram breytingar á stjórnarskrá landsins. Gegn öllu þessu þurfti að berjast og enn hefur þeim sem að þessu stóðu ekki tekist að ná markmiðum sínum. En þeir hafa ekki gefist upp og munu sæta færis til að ná síðarnefndu baráttumálunum tveimur fram, með góðu eða illu. Í mörgum öðrum málum hafði vinstristjórnin sitt fram. Skattar voru hækkaðir verulega, furðuleg axarsköft voru gerð í umhverfismálum þar sem ákveðið var að Íslendingar skyldu í raun brenna matvælum í leiðinni þegar þeir settu eldsneyti á bílinn, og stjórnmálalegum rétttrúnaði var gert hærra undir höfði en nokkru sinni áður.

Þegar horft er til baka eru það þó ekki slík einstök mál sem ber hæst. Hærra ber hin almennu sjónarmið, baráttuna fyrir frelsi einstaklingsins til að ráða sínum málum sjálfur. Í henni felst ekki áhugi á því að fáir ríkir traðki á þeim sem minna mega sín, engin löngun til að hinir efnaminni sitji eftir og séu í raun allar bjargir bannaðar. Í baráttunni felst einfaldlega stuðningurinn við hið frjálsa þjóðfélag, þar sem hver einstaklingur er virtur þess að fá að haga sínu eigin lífi í sem bestu samræmi við eigið gildismat, svo lengi sem hann brýtur ekki á öðru fólki. Í því þarf ekki að felast nein andstaða við það að þeim sé hjálpað sem eru hjálpar þurfi og að allir geti borið höfuðið hátt.

Tuttugu ár eru í dag liðin frá því þetta rit kom fyrst út. Á þeim tíma hefur það komið 7.306 sinnum fyrir augu misjafnlega þakklátra lesenda sinna. Nú verður hins vegar sú breyting á að ekki verður að vænta þeirrar daglegu útgáfu sem menn hafa mátt þola hingað til. Þótt Andríki hvorki þakki sér það sem hefur áunnist til frjálslyndis síðustu tvo áratugi né kenni sér um það sem miður hefur farið, hefur félagið haft mikla ánægju af þessum hluta starfsemi sinnar. Það vonar að frelsi hins almenna manns muni um alla tíð fá að vaxa og blómstra á frjálsu og fullvalda Íslandi og með þeim orðum óskar Vefþjóðviljinn lesendum sínum velgengni og góðvildar um ókomin ár.