Vindmylluslagurinn gegn launamun kynjanna

Mynd: Shutterstock/BestPhotoStudio.

Hún hefur ekki farið hátt skýrslan sem velferðarráðuneytið lét vinna um „Launamun karla og kvenna“ og kom út í maí 2015.

Enda segir þar á síðu 53:

Ómálefnalegan, óskýrðan launamun má skilgreina sem launamun sem eingöngu er vegna kynferðis. Um er að ræða þann mun sem eftir stendur þegar tillit hefur verið tekið til allra þeirra þátta sem áhrif hafa á launamyndun. Í reynd er í besta falli hægt að nálgast þennan mun. Launamyndun byggist oft á þáttum sem tölfræðin veitir ekki svar við. Við getum því ekki með vissu ályktað að sá óskýrði launamunur sem hér hefur verið metinn sé eingöngu vegna kynferðis.

Einföld tölfræðilíkön til að skýra laun sýna lítilsháttar „óútskýrðan“ launamun milli kynja. Með öðrum orðum hefur einungis verið sýnt fram á að sá munur sem mælist á launum karla og kvenna sé tölfræðilega marktækur innan þessara einföldu líkana.  Hinn litla mun sem mælist á launum er ekki hægt með vissu að skrifa á kynferði. Þetta er þvert á linnulausan áróðurinn um „launamun kynjanna“.

Margir ómælanlegir huglægir þættir koma við sögu þegar um laun er samið. Stundum ræður jafnvel tilviljun hvaða laun menn fá, árar vel í fyrirtækinu þegar menn eru ráðnir eða er útlitið dökkt.

Það kom á óvart fyrir kosningar að flokkur sem kennir sig við frjálslyndi skyldi boða veruleg ríkisafskipti af samningnum vinnuveitenda og starfsmanna undir heitinu „jafnlaunavottun“.

En verður ekki að gera ráð fyrir að þegar hinn frjálslyndi flokkur áttar sig á hve síbyljan um launamun kynjanna byggir á veikum forsendum að hann taki málið til endurskoðunar?