Pappírshagkerfi Sorpu

Endurvinnsla er orkufrek iðnaðarstarfsemi. Mynd: Xseon/Shutterstock.

Í grein hér á vefnum í gær – sem er svargrein við greininni „Ertu ekki búinn að fá þér bláu tölvuna“ – fullyrðir starfsmaður Sorpu að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu spari 175 milljónir króna á ári með því að senda papparusl til Svíþjóðar í stað þess að urða það. Starfsmaðurinn víkur hins vegar ekki orði að því að lesa blöð á netinu sem er raunhæfur kostur en kannski ekki mjög glæsilegur fyrir atvinnuhorfur starfsmanna sorpfyrirtækja.

Í svari til Andríkis neitar Sorpa hins vegar að leggja fram forsendur fyrir þessu mati sem er áhugavert viðhorf en kemur ekki alveg á óvart þegar viðhorf fyrirtækisins almennt eru skoðuð. Matið er því bara órökstudd fullyrðing Sorpu.

Í mati Sorpu virðist ekki tekið tillit til þeirrar niðurgreiðslu á pappírsendurvinnslu sem felst í úrvinnslugjaldi sem er skattur sem neytendur greiða af pappírsumbúðum við innflutning.

Ekki er tekið tillit til þess óhagræðis sem felst í því tvöfalda söfnunarkerfi sorps á höfuðborgarsvæðinu sem pappírsflokkun hefur í för með sér. Sérstaka eða sérútbúna bíla þarf til að sækja pappann, íbúar þurfa að vera með sérstaka tunnu og svæði eða skýli undir hana. Þá er ekki tekið tillit til vinnuframlags íbúa við flokkun og ferðalaga á einkabílnum út á endurvinnslustöðvar eða í svonefnda grenndargáma.

Ekki virðist tekið tillit til þess kostnaðar sem fellur til hjá Sorpu við sérstaka meðhöndlun og flokkun pappírsins og böggun hans í gáma til útflutnings. Um þetta atriði eins og önnur neitar Sorpa að veita upplýsingar.

Sorpa er í eigu sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og hefur í krafti þeirra nánast algera einokun á meðhöndlun sorps á svæðinu. Verðskrá hennar fyrir urðun er ekki byggð á eðlilegum markaðsforsendum heldur miklu fremur á pólitískum áherslum um æskilegan farveg fyrir sorpið. Urðunargjöldin geta því verið ígildi skatts sem nýttur er til að niðurgreiða aðra starfsemi Sorpu eins og meðhöndlun á papparusli.

Á meðan sveitarfélögin eru á kafi í ruslinu er engin leið að átta sig á því hvað er hagkvæmt í þessum efnum og hvað ekki. Ef til vill sæju einhverjir sér hag í því að safna pappa saman og senda hann til útlanda í endurvinnslu. Kannski er það fundið fé. En það kemur ekki í ljós á meðan starfsemin er pólitísk, niðurgreidd með sköttum og þvinguð fram með ógagnsærri verðstýringu á sorphirðu og förgunarkostum.

Í greininni frá Sorpu er vísað í „vistferilsgreiningar“ á kostum þess fyrir umhverfið að safna papparusli saman og senda það í siglingu til Svíþjóðar. Ekki er þó vísað í ákveðna vistferilsgreiningu en gera má ráð fyrir að um sé að ræða skoðun á einni sviðsmynd frá árinu 2008 á vegum Úrvinnslusjóðs. En þessi sviðsmynd á ekki við þær aðstæður sem eru í urðunarstöðum eða það hlutfall pappírs sem er endurunnið hér. Vistferilsgreiningar af þessu tagi eru auk þess almennt takmörkunum háðar enda engin leið að draga alla þætti flókins máls saman í einföldum greiningum af þessu tagi.

Og þessi vistferilsgreining svarar því hreint ekki hvort er betra að fá dagblað úr innfluttum pappír inn um lúguna og setja það í sérstaka bláa tunnu sem tæmd er af sérstökum sorptrukki sem flytur það til frekari flokkunar og böggunar til siglingar yfir Atlantshafið eða bara lesa blaðið í tölvunni sem þegar er til staðar á heimilinu.

Það kann stundum að vera í góðu lagi að flokka og skila en svo má líka hugsa og sleppa.