Varstu ekki búinn að fá þér bláu tölvuna?

Endurvinnsla á pappír er iðnaður sem hefur áhrif á umhverfið eins og önnur starfsemi. Mynd: Xseon/Shutterstock.

Stærsta endurvinnsluverkefnið sem íslenskir stjórnmálamenn hafa sett almenningi fyrir er söfnun á pappír sem sendur er úr landi með svartolíubrennandi flutningaskipum til endurvinnslu.

Og hver sagði okkur aftur að þetta væri besta leiðin fyrir umhverfið? Hver hefur raunverulega kafað ofan í málið með þeim hætti hér á landi að hann geti fullyrt að pappírssöfnunin sé hagkvæm, græn og sjálfbær?

Það hefur auðvitað enginn gert.

Endurvinnsla er á flestan hátt eins og hver annur iðnaður þar sem menn nota orku og aðrar auðlindir, krefst efnameðhöndlunar og vélbúnaðar og skilar af sér úrangi líkt og Daniel K. Benjamin prófessor útskýrir svo ágætlega í þessu stutta myndbandi:

Þannig er það auðvitað um pappírssöfnunina í Reykjavík.

Það fer orka í framleiðslu á sérstakri „blárri“ tunnu undir pappír. Það þarf að flytja hana til landsins. Tunnan er úr plasti sem margir líta hornauga.  Það fer pláss undir hana í sorpgeymslum og við heimili og fyrirtæki sem hefur auðvitað kostnað í för með sér. Sérstaka ferð eða sérútbúinn sorptrukk þarf til að tæma úr bláu pappírstunnunni. Í Reykjavík ekur trukkurinn með pappann í móttöku- og flokkunarstöð þar sem hann er flokkaður eftir gerð og svo pressaður og baggaður, settur í gáma sem ekið er niður á höfn þaðan sem skip flytur hann til Svíþjóðar.

Er þetta umhverfisvænna en að urða pappann með öðru sorpi?

Á vef Reykjavíkurborgar segir:

Hlutur pappírsefna í Reykjavík hefur dregist saman síðustu ár og fór úr 27% árið 2011 í 11% árið 2014 og má það rekja til þess að bannað var að setja þau í gráar tunnur undir blandaðan úrgang. Um 47.500 tunnuígildi eru við heimili í Reykjavík á vegum Reykjavíkurborgar. Þar af eru 13.000 tunnur undir pappírsefni og 1700 undir plast.

Af þessu má ætla að sorp til urðunar hafi minnkað um 16% við það að safna pappanum saman og senda hann í siglingu til Svíþjóðar. Er það umstangsins virði? Eru þessir flutningar hér innanlands og um heimsins höf betri fyrir umhverfið en urðun? Úr því hefur enginn skorið.

En er ekki verið að hlífa skógum heimsins með endurvinnslu á pappír? Nei pappír er að mestu leyti unnin af skógarökrum þar sem trjám hefur sérstaklega verið plantað til vinnslu timburs og pappírs. Og þvert á það sem oft er fullyrt eru skógar heimsins að breiða úr sér. Árlegur vöxtur þeirra er tvítugfalt meiri en samsvarar árlegri notkun mannsins á timbri og pappír.

Hér er því ýmsum spurningum ósvarað og alls óvíst að nokkurt svar fáist á meðan hið opinbera sér að mestu leyti um sorphirðuna. Á meðan hið opinbera sér um þetta veit enginn hvort þetta er hagkvæmt – þ.e. sparar takmarkaðar auðlindir umfram aðra kosti – sem gæti jafnframt verið góð vísbending um að þetta sé gott fyrir umhverfið.

Stór hluti af pappírsrusli frá heimilum eru dagblöð. Þeir sem fá öll blöðin inn um lúguna og allan auglýsingapóstinn sem þeim fylgja eru eðlilega í vandræðum með að koma þessum ósköpum frá sér.

Margir hafa því gripið til þess ráðs að afþakka blöðin á pappír og lesa þau á netinu. Fólkið sem það gerir sleppir ekki aðeins öllu orkufreka endurvinnsluferlinu á pappír sem lýst var hér að framan heldur dregur það einnig úr flutningi á pappír til landsins.

Þarna er því kominn þriðji kosturinn til viðbótar við urðun og endurvinnslu án þess að nokkur sveitarstjórnarmaður hafi haft um það forgöngu. Enginn frá sorphirðu borgarinnar sendi bréf og bauð fólki „bláa“ spjaldtölvu til að lesa blöðin. Þetta gerðist bara. Sannkölluð sjálfbær þróun.

Oft er það best þannig.