Athugasemd frá Sorpu: Varstu ekki búinn að fá þér bláu tunnuna?

Móttöku- og flokkunarstöð Sorpu. Mynd: sorpa.is.

Í greininni Varstu ekki búinn að fá þér bláu tölvuna? sem birtist í Vefþjóðviljanum 6. nóvember koma fram efasemdir um pappírssöfnun á höfuðborgarsvæðinu – að hún geti verið  hagkvæm, græn eða sjálfbær. Því til stuðnings er vísað í myndband prófessorsins Daniel K. Benjamin. Myndbandið sýnir prófessorinn henda snýtubréfi í ruslið í stað þess að setja það í endurvinnslutunnu. Lítil verðmæti felast í snýtupappír með lífrænu innihaldi í pappírsendurvinnslu svo mat prófessorsins er í góðu samræmi við flokkunarreglur á höfuðborgarsvæðinu. Dagblöð og pappírsumbúðir eru hins vegar hráefni sem vert er að nýta og fyrir það er markaður. Það er einfaldlega hagkvæmara fyrir sveitarfélög að skila flokkuðum pappírsefnum til SORPU heldur en að skila þeim með blönduðum heimilisúrgangi eins og sést á gjaldskrá fyrirtækisins, gjaldskrá sem endurspeglar raunkostnað við meðhöndlun mismunandi úrgangstegunda. Það sem af er árinu hafa sveitarfélögin sparað yfir 175 milljónir króna í formi móttökugjalda með því að skila flokkuðum pappírsefnum frá heimilum í stað þess að skila þeim með blönduðum heimilisúrgangi. Gera má ráð fyrir að sveitarfélögin geti fundið betri not fyrir þessa upphæð en að verja henni í urðun úrgangs.

En er umhverfisvænt að senda pappírinn erlendis til endurvinnslu? Besta aðferðin til að skera úr um það er að gera vistferilsgreiningu, en það er alþjóðlega stöðluð og viðurkennd aðferðarfræði til að meta umhverfisáhrif vöru eða þjónustu yfir líftíma hennar. Og það er einmitt það sem hefur verið gert varðandi pappírssöfnun á höfuðborgarsvæðinu og víðar um landið. Niðurstöður þeirra greininga eru ótvíræðar. Söfnun á pappírnum og útflutningur til endurvinnslu er mun hagstæðari umhverfislega en urðun hans. Það er óháð því hvort pappírinn er flokkaður í grenndargáma eða sóttur í bláar tunnur, sem og flutningi hans með skipum til vinnslu í Svíþjóð. Endurvinnsla pappírsins dregur umtalsvert úr orku, útblæstri gróðurhúsalofttegunda og auðlindanotkun jafnvel þó að þurfi að flytja hann um langan veg.

Pappírsendurvinnsla sparar sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu milljónir og dregur úr umhverfisáhrifum pappírsnotkunar.

Ertu ekki örugglega búinn að fá þér bláu tunnuna?

Gyða S. Björnsdóttir, sérfræðingur hjá Sorpu.