Það er sláandi að fylgjast með viðbrögðum fjölmargra ungra vinstrimanna í Bandaríkjunum við úrslitum forsetakosninganna í landinu. Auðvitað á ekki að alhæfa um þá, frekar en aðra hópa, og vafalaust eru mjög margir ungir vinstri menn einnig í hópi þeirra vonsviknu kjósenda sem hafa nægan þroska og skilning á lýðræði til að una úrslitum sem þeir eru óánægðir með.
En þeir fjölmörgu, sem dag eftir dag efna til „mótmæla“ með öskrum og skemmdarverkum vegna úrslita í lýðræðislegum kosningum, virðast ekki bera mikla virðingu fyrir lýðræði eða leikreglum.
Eina eðlilega ástæðan sem menn gætu haft fyrir „mótmælum“ við kosningaúrslitum væri sú að rangt hefði verið haft við. Talið vitlaust og svo framvegis. En það, að þeir sem kusu þann sem tapaði, séu óánægðir, skiptir engu máli. Rétt eins og það skiptir engu máli þótt stjórnarandstæðingar haldi fundi og krefjist afsagnar stjórnarinnar. Stjórnin var ekki kosin með atkvæðum stjórnarandstæðinga og missir aldrei neitt umboð við það að stjórnarandstæðingar mótmæli.
Donald Trump, hvað sem mönnum finnst um hann, vann öruggan sigur í forsetakosningunum og ekkert bendir til þess að rangt hafi verið haft við. Að minnsta kosti dettur hvorki Hillary Clinton né Barack Obama slíkt í hug. Þeir sem fara nú um með öskrum og skemmdarverkum eru ekki „mótmælendur“ heldur ofstopamenn og í einhverjum tilvikum skemmdarvargar.
Víða er slíkum ofstækismönnum sýnt mikið langlundargeð. Fréttamenn eru til dæmis ótrúlega gjarnir á að hleypa „mótmælendum“ á sjónvarpsskjáina þrátt fyrir að þeir hafi ekkert fram að færa nema öskrin. Það ætti að hugsa sér tvo menn. Báðir eru mjög á móti ríkisstjórninni. Annar skrifar vandaða blaðagrein þar sem hann rökstyður vandlega hvers vegna ríkisstjórnin sé léleg og ráði ekki við verkefni sín. Hinn fer niður í bæ og öskrar slagorð á þinghúsið í nokkra klukkutíma. Sá sem öskrar fær mynd af sér í sjónvarpinu og fréttamaður réttir honum hljóðnema. Engum dettur í hug að gera frétt um greinina hjá hinum, um rökin sem þar birtust og bera þau svo undir einhvern stjórnarliða.
Þannig ýta fréttamenn undir hina háværu á kostnað þeirra sem vilja beita rökum. Fréttamenn, sem þannig hafa unnið í mörg ár, eru svo mjög hneykslaðir á því að maður „eins og Donald Trump“ njóti stuðnings.
Fréttamenn þurfa að læra að það er yfirleitt ekkert fréttnæmt við það að fólk safnist saman og öskri. Ef menn halda að slíkt komi þeim í fréttir og ef menn halda að stjórnvöld láti undan öskrinu, munu öskrin halda áfram. Til þess að rökræðan eflist en öskrin minnki þurfa fréttastjórar að átta sig á því að sá öskrandi hefur ekkert fram að færa umfram þann sem rökræðir, og ráðamenn í löndum verða að gæta þess að láta ekki öskrandi menn ráða því hvað gert er.