Enginn verið betri, í 240 ár

Þær skoðanir sem íslenskir fjölmiðlamenn og álitsgjafar setja fram eru oft ótrúlega einhæfar og fyrirsjáanlegar. En þá skortir sjaldnast sannfæringuna um blaðamannaheimsmyndina.

Síðustu daga hafa margir leitað skýringa á öruggum sigri Donalds Trumps í bandarísku forsetakosningunum. Auðvitað má segja að ekki sé hægt að setja fram nema mjög yfirborðskenndar skýringar á því af hverju um sextíu milljónir manna kjósi með einhverjum ákveðnum hætti. Skýringarnar á því slíku hljóti að vera mjög margar og fjölbreyttar.

Kannski má finna eina skýringuna með því að lesa stutta grein Önnu Lilju Þórisdóttur í Morgunblaðinu í morgun. Þar kvartar hún yfir ósigri Hillary Clinton og leiðir talið mjög óvænt að „glerþakinu“ sem heldur auðvitað konum niðri um allan heim. Í greininni segir:

Hún var sögð njóta forréttinda sem fyrrverandi forsetafrú, öldungadeildarþingmaður og utanríkisráðherra. Hún nyti líka forréttinda sem kona. Þessi forréttindi voru samt ekki meiri en svo en að þessi hæfasti frambjóðandi sem nokkru sinni hefur boðið sig fram til embættis forseta Bandaríkjanna, kona sem hefur helgað alla starfsævi sína opinberri þjónustu og setið í valdamesta ráðherrastóli lands síns, tapaði fyrir einstaklingi sem virðist vera sá óhæfasti sem nokkurn tíma hefur boðið sig fram.

Ætli svona viðhorf hafi ekki haft einhver áhrif á niðurstöður kosninganna? Blaðamaðurinn trúir því og telur sig geta fullyrt að Hillary Clinton sé „hæfasti frambjóðandi sem nokkru sinni hefur boðið sig fram til embættis forseta Bandaríkjanna“. Hillary Clinton var þingmaður í minna en eitt og hálft kjörtímabil og utanríkisráðherra í eitt. Eftir utanríkisráðherratíðina var hún næstum því ákærð fyrir meðferð trúnaðarmála og alríkislögreglan segir hana hafa komið fram af ótrúlegu ábyrgðarleysi. Hillary Clinton hefur margt til brunns að bera, eins og svo margir, en fullyrðingar um að hún sé „hæfasti frambjóðandi sem nokkru sinni hefur boðið sig fram til embættis forseta Bandaríkjanna“, frá George Washington til nútímans, þau 240 ár sem liðin eru frá stofnun Bandaríkjanna, eru ótrúlegur barnaskapur.

Blaðamaðurinn, sem hefur þá óvæntu skoðun meðal blaðamanna að Donald Trump virðist vera „sá óhæfasti sem nokkru sinni hefur boðið sig fram“, gerir þó fyrirvara um Trump. Hún segir að „virðist vera sá óhæfasti“, sem gefur Trump að minnsta kosti þann möguleika að einhvern tíma á síðustu 240 árum, hafi einhver verri boðið sig fram. En það er enginn fyrirvari um Hillary. Hún er sú hæfasta sem nokkru sinni hefur boðið sig fram.

Þessu trúa margir blaðamenn. Margir þeirra skrifa svona. Margir hafa skrifað svona árum saman.

Ætli málflutningur eins og þessi hafi haft áhrif á einhverja? Að þeir hafi bara ákveðið að skreppa á kjörstað og segja skoðun sína á blaðamannaheimsmyndinni?