Sjálfstæðisflokkurinn langstærstur í fyrsta sinn frá 1999

Í fyrsta sinn frá alþingiskosningunum 1999 er óhætt að segja að Sjálfstæðisflokkurinn beri höfuð og herðar yfir aðra flokka þegar talið hefur verið upp úr kjörkössum, þótt vissulega sé fylgi hans minna en í kosningunum 2003 og 2007. Og ekki nóg með það heldur er búið að sprengja vinstri væng stjórnmálanna upp í enn fleiri flokka en gengu í eina sæng undir merkjum Samfylkingarinnar um aldamótin þegar átti að sameina alla vinstri menn í einum flokki. Nýkjörnir þingmenn Samfylkingarinnar sjálfrar eru hins vegar færri en flokkarnir sem stóðu að henni. Flokkur borgarstjórans í Reykjavík á nú enga fulltrúa á alþingi fyrir höfuðborgina.

En þarf það að koma á óvart þegar svo margir vinstri flokkar bjóða fram að einhver þeirra verði undir? Þegar Björt framtíð stelur stefnu og mannskap Samfylkingarinnar og Viðreisn hnuplar svo stefnumálum og fólki frá Bjartri framtíð er hætt við að einhver gleymist.

Samfylkingin, Viðreisn, Björt framtíð, Píratar og VG slást nú um atkvæði þeirra sem annað hvort hafa það á stefnuskránni eða hafa tekið þátt í að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Af þeim sökum er stjórnarskrá lýðveldisins jafnframt í skotlínu þessara flokka. Margir þessara flokka aðhyllast svo „markaðsleið“ í sjávarútvegsmálum sem felst í því að taka aflaheimildir af markaði, bjóða þær upp á vegum ríkisins og rétta svo þeim stöðum sem verða undir á uppboðinu bætur úr nýjum millifærslusjóði.

En eru ekki sigurvegarar kosninganna samt ekki þeir sem „bættu mestu við sig“? Nei, þegar kjörstaðir eru opnaðir að morgni kjördags eru engin atkvæði í kössunum frá síðustu kosningum. Það byrja allir á núlli. Það á enginn flokkur atkvæði þótt hann hafi fengið þau mörg í gegnum tíðina.