Hver vill setjast í tímavél… og stilla á 2009?

Í dag er kosið og valkostirnir eru skýrir.

Með því að kjósa núverandi stjórnarflokka er kosið með því að Ísland haldi áfram á sömu braut og síðustu misseri. Jöfn og stöðug kaupmáttaraukning, nær ekkert atvinnuleysi, mjög hóflegar skattalækkanir, hallalaus fjárlög, Ísland utan Evrópusambandsins. Síðustu ár hafa kjör allra mældra hópa batnað umtalsvert og með óbreyttri stjórnarstefnu má gera ráð fyrir að það haldi áfram. Ísland er á og við toppinn í alls kyns alþjóðlegum samanburði.

Svo er hægt að kjósa núverandi stjórnarandstöðuflokka eða eitthvert nýju framboðana sem segjast ætla að vinna með þeim.

Stjórnarandstaðan vill nýja umsókn í Evrópusambandið. Hún vill enn kollvarpa stjórnarskránni og krefst þess að miðað verði við allar tillögurnar sem komu frá stjórnlagaráði Þorvaldar Gylfasonar og félaga. Stjórnarandstaðan vill hækka skatta. Stjórnarandstaðan vill hertar álögur á atvinnulífið.

Ríkisstjórnin er ekki fullkomin, en hún vill halda áfram á sömu braut stöðugleika og kaupmáttaraukningar og verið hefur síðustu ár.

Stjórnarandstaðan vill fara strax til ársins 2009 og byrja þar aftur.

Hver vill fara í tímavél og stilla á 2009?