Þeir „umdeildu“ eru yfirleitt hægra megin

Bretar hafa fengið nýjan utanríkisráðherra en því miður reyndist „umdeildur“ maður verða fyrir valinu.

Þá þarf varla að spyrja hvort hann er hægra megin eða vinstra megin við miðju. Þeir „umdeildu“ eru yfirleitt hægra megin, rétt eins og „öfgamenn“  og „pópúlistar“.

Fréttaskýrendur þuldu upp í gær að nýi utanríkisráðherrann, Boris Johnson, hefði á síðustu árum móðgað fjölmarga. Það væri því ekkert undarlegt að hann sé svona umdeildur. Í gær sagði utanríkisráðherra Frakklands opinberlega að Johnson væri lygari. Það þótti fréttaskýrendum sýna skýrt hversu umdeildur Johnson væri og hvernig hann væri alltaf að móðga menn.

Ummælin þóttu hins vegar ekki segja neitt um franska utanríkisráðherrann. Þau verða aldrei höfð sem sönnun um að hann sjálfur sé ruddi. Þau verða aldrei endurbirt, úr öllu samhengi, eins og ýmis orð Boris Johnson eru ítrekað birt til að gefa af honum hina verstu mynd.

Utanríkisráðherra Þýskalands sagði opinberlega að það væri hneyksli að Boris Johnson hefði leyft sér að spila krikket, daginn eftir að úrslit Brexit-kosningarinnar voru ljós. Enginn spurði þann þýska hvers vegna Johnson hefði ekki mátt gera það. Ekki var Johnson í ríkisstjórn þá. Hann var óbreyttur þingmaður sem réði engu um næstu skref ríkisstjórnar David Cameron. Hvað var það sem Johnson varð að gera, frá morgni til sólarlags, þennan dag? Enginn mun vitna í reiðileg orð þýska ráðherrans sem sönnun þess að hann kunni sig ekki. Eða sé „umdeildur“.

Fréttaskýrendur og ráðherrar á meginlandinu telja það hreinan brandara að Boris Johnson sé valinn í ráðherraembætti. Hann sé svo ábyrgðarlaus og óhæfur. Gasprari sem ráði ekki við ábyrgðarstörf í stjórnmálum.

Hvað heitir aftur þorpið þar sem Boris Johnson var kosinn borgarstjóri árið 2008 og svo endurkosinn árið 2012? Getur verið að það heiti London?

Og hvað heitir aftur íþróttamótið sem þar var haldið á borgarstjóraárum hans, þar sem hann var annar formanna framkvæmdanefndarinnar? Getur verið að það hafi verið Ólympíuleikar?

Vefþjóðviljinn 197. tbl. 20. árg.