Léttar reglur og lágir skattar

Því er stundum haldið fram að hægri flokkar, eins og Sjálfstæðisflokkurinn, eigi að styðja „séreignarstefnuna“.

En eiga hægriflokkar yfirleitt að hafa skoðun á því hvort fólk býr í eigin húsnæði eða annarra? Það er vandséð að það samrýmist hinni almennu stefnu þeirra að treysta eigi fólki til að taka ákvarðanir um eigin málefni á eigin forsendum. Þar með talið hlýtur að vera sú ákvörðun hvers mann hvort hann leigir eða gerir tilraun til að kaupa húsnæði eða jafnvel byggja húsið sitt það sjálfur.

Hitt blasir svo við að ríki og sveitarfélög þvælast með ýmsum hætti fyrir fólki sem vill eignast eigið húsnæði. Virðisaukaskattur er hár á aðföng til bygginga en nýlega voru hins vegar vörugjöld af hvers kyns byggingarefni afnumin, takk fyrir það. Tekjuskattur smiðsins og múrarans kemur einnig fram í byggingarkostnaði. Kröfur í lögum um lyftur, svalir, geymslur og þvottahús auka á kostnaðinn. Sveitarfélög hafa sum þá stefnu að þétta byggð og takmarka því úthlutun á nýju byggingarlandi.

Vaxtabætur hafa sömuleiðis áhrif á þá vexti sem lánveitendur krefjast, þeir hirða vafalítið stóran hluta af bótunum með hærri vöxtum og húsaleigubætur hækka almennt verð á húsaleigu.

Þegar á allt er litið eiga hægri flokkar því ekki að reka „séreignarstefnu“ heldur að hver maður hafi sem mestan ráðstöfunarrétt yfir sér og sínum. Það gerist fyrst og síðast með léttum reglum og lágum sköttum.

Vefþjóðviljinn 196. tbl. 20. árg.