Miðvikudagur 6. júlí 2016

Vefþjóðviljinn 189. tbl. 20. árg.

Á síðasta kjörtímabili efndi meirihlutinn á Alþingi til réttarhalda yfir pólitískum andstæðingi sínum.

Á síðasta kjörtímabili efndi meirihlutinn á Alþingi til réttarhalda yfir pólitískum andstæðingi sínum.

Fyrir nokkrum dögum var það haft eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur að hún treysti ekki nýkjörnum formanni Samfylkingarinnar, Oddnýju Harðardóttur.

Skýringin á því var framganga Oddnýjar í landsdómsmálinu, þar sem hún vildi að Ingibjörg Sólrún yrði dregin fyrir dóm.

Framganga fjölmargra þingmanna í því máli varð þeim til skammar. Enginn þeirra sem stóðu að ákærunni á Geir Haarde hefur beðist afsökunar opinberlega í tilefni af niðurstöðunni, þar sem ekkert hinna alvarlegu ákæruatriða var tekið til greina, en fallist á algert aukaatriði sem enginn hafði látið ráða ákvörðun sinni um ákæru. Nokkrir þeirra, sem að þessu stóðu, höfðu hins vegar séð að sér áður og stutt tillögu um afturköllun ákærunnar. Það var þeim til sóma.

En Ingibjörg Sólrún treystir ekki formanni Samfylkingarinnar og þá er spurning hvort aðrir eiga að það gera það heldur.

En þá má líka spyrja annarrar spurningar. Hefur Ingibjörg Sólrún einhvern tíma hrósað þingmönnum Sjálfstæðisflokksins fyrir það hvernig þeir greiddu atkvæði í landsdómsmálinu. Nokkrum mínútum eftir að meirihlutinn á þingi hafði ákveðið að ákæra Geir Haarde voru greidd atkvæði um það hvort Ingibjörg Sólrún yrði ákærð. Og allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn því. Ætli margir flokkar hefðu staðið þannig að málum?

Ætli álitsgjafar hefðu rætt það undanfarin ár, ef þetta hefði verið öfugt? Ef sjálfstæðismenn hefðu haldið pólitísk réttarhöld yfir Ingibjörgu Sólrúnu en Samfylkingarmenn samt fellt tillögu um réttarhöld yfir Geir Haarde?