Vefþjóðviljinn 185. tbl. 20. árg.
Eins og menn muna brutust út gríðarleg fagnaðarlæti þegar samkomulag tókst í París á síðasta ári um aðgerðir til að sporna gegn hlýnun andrúmsloftsins.
Bjorn Lomborg skrifar um samninginn í The Wall Street Journal í gær.
Parísar-samningurinn mun kosta stórkostlega fjármuni án þess að draga úr hlýnun andrúmsloftsins svo nokkru nemi. Í ritrýndri grein sem ég skrifaði í Global Policy fyrr á árinu skoðaði ég hinar rómuðu aðgerðir sem þeir sem skrifuðu undir Parísar-samkomulagið hafa lofað að grípa til og komst að þeirri niðurstöðu að að þær muni hafa hverfandi áhrif á hitastig. Ég notaði sömu spálíkön fyrir hitastig og Sameinuðu þjóðirnar nota.
Sem dæmi um þetta nefnir Lomborg áætlun Obama forseta Clean Power Plan sem mun við lok 21. aldar hafa dregið úr hlýnun um 0,01 degC. Obama hefur lagt um ráðin um frekari aðgerðir og ef þær ganga allar eftir mun hlýnun verða átta mánuðum síðar á ferðinni árið 2100 en hún hefði ella orðið.
Hið sama má segja um aðrar þjóðir sem eiga aðild að samkomulaginu. Ef samkomulagið gengi eftir fyrir allar aðildarþjóðir (sem væri nýtt fyrir Sameinuðu þjóðirnar) myndi hlýnun við lok aldarinnar verða fjórum árum síðar en ella.
Áætlað hefur verið að kostnaðurinn við þessar aðgerðir verði um 100 trilljónir bandaríkjadala. Lomborg segir galið að eyða slíkum fjármunum til einskis.
En þótt menn hafi villst af leið í París í Frakklandi er margt sem horfir til betri vegar. Til að mynda bendir Lomborg á að bergbrotið svonefnda hafi keyrt niður verð á jarðgasi sem hafi komið í stað kola við orkuframleiðslu. Þetta hafi dregið mjög úr losun gróðurhúsalofttegunda. Menn ættu því kannski frekar að líta til Parísar í Texas.