Vefþjóðviljinn 186. tbl. 20. árg.
Píratar, sem tæplega þriðji hver landsmaður vill víst að taki við stjórn landsins, héldu prófkjör í norðausturkjördæmi í vikunni. Eftir prófkjörið sagði einn þátttakandinn, Björn Þorláksson blaðamaður, að lítil klíka hefði tryggt sjálfri sér efstu sætin en haldið yfirburðafólki í neðri sætum. Flókið hefði verið að kjósa og prófkjörið illa auglýst.
Af þessu tilefni var Kristrún Ýr Einarsdóttir, kafteinn Pírata í kjördæminu, í viðtali við Ríkisútvarpið. Hún sagði að öllum væri frjálst að gagnrýna það sem þeir vildu En bætti við: „Maður þarf hins vegar ekki alltaf að gera það opinberlega og það er allt í lagi að tala við sitt fólk innanbúðar áður en rokið er í það að gagnrýna eitthvað opinberlega, og fá bara svör við því og ræða það.“
Með öðrum orðum þá finnst leiðtoga Pírata verst að þessi gagnrýni hafi fengið að koma fyrir augu almennings. Félagsmaðurinn sem var ósáttur átti bara að segja frá því einhvers staðar fyrir luktum dyrum, en ekki „opinberlega“.
Ef þetta hefði verið í einhverjum öðrum flokki hefði líklega verið talað um leyndarhyggju, þöggun og bakherbergjavinnubrögð.
En ekki þegar Ríkisútvarpið fjallar um Pírata. Þá þykir ekki fréttnæmt að leiðtogi Pírata gagnrýni félagsmann fyrir að tjá sig opinberlega.
Hver var fyrirsögn Ríkisútvarpsins af fréttinni af viðbrögðum kafteins Pírata?
„Píratar taka gagnrýni Björns vel.“