Föstudagur 1. júlí 2016

Vefþjóðviljinn 184. tbl. 20. árg.

Erlendir miðlar. Já þegar þeir segja það hlýtur það er vera rétt.

Þeir hafa auðvitað sagt frá afrekum íslenska landsliðsins á Evrópumótinu í Frakklandi.Og svo ýmsu sem því tengist.

Til að mynda því að 10% Íslendinga hafi farið til Frakklands til að fylgjast með liðinu. Já hafa Íslendingar ekki keypt um 30 þúsund miða á leiki liðsins til þessa? Er ekki 30 þúsund tíund af 300 þúsund? Jú mikið rétt, en að verulegu leyti er um sama fólkið að ræða sem fór á leik eftir leik.

Í erlendum miðlum hefur einnig verið sagt frá því að 99,8% landsmanna hafi horft á leikinn við Englendinga. En voru það ekki 99,8% þeirra sem á annað borð sátu við sjónvarpsskjáinn sem voru að fylgjast með leiknum?

Líklega eru þessi tvö dæmi lýsandi fyrir það sem gerist þegar fyrirsagnir úr einu blaði verða fréttir í sjónvarpi án frekari skýringa. Þetta eru auðvitað engin stórmál en segja ákveðna sögu um meðferð fjölmiðla á upplýsingum, ekki síst tölum.

Þetta má alveg hafa í huga þegar erlendu „stórblöðin“ og sjónvarpsstöðvarnar segja fréttir og þeim er endurvarpað hér með lotningu.