Bretar kjósa á morgun. Þeim gefst færi á því, sem öðrum hefur ekki boðist, að koma sér út úr Evrópusambandinu.
Og það mega spekingar ekki heyra minnst á. Höfðingjarnir í Brussel vilja alls ekki hleypa neinu landi undan veldi sínu. Leiðtogar annarra ESB-ríkja óttast að eigin þegnar fari fram á það sama og Bretar fengu, leyfi til að kjósa sig undan Brussel-valdinu.
Þess vegna dynur hræðsluáróðurinn nú á Bretum. Þeirra bíður stórfelld lífskjaraskerðing, ef þeir koma sér undan Evrópusambandinu. Þeir verða „aftastir í biðröðinni“ í öllum alþjóðasamningum. Þeir einangrast.
Kannast Íslendingar nokkuð við svona söng?
Hér heima var reynt að beita svipuðum aðferðum til að koma Icesave á herðar skattgreiðenda. Hræðsluáróðurinn var notaður miskunnarlaust. Ríkisútvarpið hamaðist og álitsgjafarnir hömuðust.
En þeim mistókst ætlunarverkið.
Spennandi er að vita hvernig fer í Bretlandi. Kosning um aðild að Evrópusambandinu er að vissu leyti ólík kosningu Íslendinga um Icesave. Það er ólík hugmyndafræði sem ræður því hjá mörgum, hvort þeim þykir aðild að slíku bandalagi góð eða slæm. Þeir sem vilja standa vörð um fullveldi lands síns og vilja ekki að ókosnir erlendir stjórnmálamenn ráði þar flestu, þeir eru á móti slíkri aðild. En þeim sem finnst þetta ekki skipta máli, þeir geta frekar stutt aðildina ef þeim sýnist hún hafa einhverja kosti sem skipti máli.
Það snýst um skoðanir og þær skoðanir eru ekki endilega réttar eða rangar. Þar ráða einfaldlega ólíkar skoðanir atkvæði fólks.
Icesave málið snerist um rétt og rangt.