Þriðjudagur 21. júní 2016

Vefþjóðviljinn 174. tbl. 20. árg.

Þarna má sjá fótboltakarlinn Ronaldo í karlaliði Portúgals leika gegn karlaliði Íslands á Evrópumóti karla í knattspyrnu karla.

Þarna má sjá fótboltakarlinn Ronaldo í karlaliði Portúgals leika gegn karlaliði Íslands á Evrópumóti karla í knattspyrnu karla.

Eru erlendir fjölmiðlar eins og þeir íslensku? Eða eru þeir íslensku í sérflokki hvað þetta varðar?

Vefþjóðviljinn hefur ekki kannað það víða en hann hefur samt hvergi nema í íslenskum fjölmiðlum orðið var við fjölmiðlamenn sem telja sig þurfa að taka fram oft á dag að Evrópumótið í knattspyrnu, sem nú stendur yfir, sé Evrópumót karla. Að keppt sé í knattspyrnu karla. Að það sé karlalið Íslands sem keppi við karlalið Portúgals.

Einhver hefur talið fréttamönnum trú um að ef þeir gættu ekki þessa orðalags væru þeir að gera lítið úr konum og þeirra knattspyrnumótum. Að þá myndi einhver halda að fréttamennirnir héldu að mót karlaliðanna væru raunuverulegu meistaramótin. Þess vegna verði að taka fram að nú sé keppt í knattspyrnu karla.

Getur verið einhver önnur skýring á því að þetta er tekið fram í sífellu?

Er einhver til sem veit ekki að nú keppa karlalið? Taka erlendir fjölmiðar þetta fram oft á dag?

Hver á ekki uppáhaldslið í ensku karlaknattspyrnunni? Karlalið Liverpool má muna sinn fífil fegri en er þó enn fyrir ofan karlalið Everton.

Hvaða ótrúlegi rétttrúnaður er þetta?

Lítið dæmi af sama toga má finna á heimasíðu Alþingis. Þar eru birt nýsamþykkt lög og hvernig atkvæðagreiðslur hafa farið þegar lögin voru samþykkt. Þar eru birtar nokkrar samantekir, hvernig atkvæði hafa skipst eftir flokkum og eftir kjördæmum. En hvað ætli sé tekið fram fyrst? Jú, hvernig þau hafa skipst eftir kyni þingmanna.

Það á erindi við kjósendur hvernig stuðningur og andstaða við mál skiptist eftir stjórnmálaflokkum. Það má einnig rökstyðja slíka flokkun eftir kjördæmum. En hverjum dettur í hug að athuga fyrst af öllu hvernig þau hafa fallið eftir kyni þingmanna?