Mánudagur 20. júní 2016

Vefþjóðviljinn 173. tbl. 20. árg.

Milljarðar. Tugir milljarða.

Í Viðskiptablaðinu í síðustu viku var haft eftir Herði Arnarsyni forstjóra Landsvirkjunar að þegar fram líði stundir muni fyrirtækið hæglega geta greitt eigendum sínum tugi milljarða í arð á ári.

Þessi spá forstjórans kann að rætast en hún getur einnig verið algerlega út í bláinn. Forstjórinn veit ekki fremur en nokkur annar hvernig orkuverð þróast þegar fram líða stundir. Það mun ráða mestu um afkomu félagsins. Fáir hefðu til að mynda spáð því að olíuverð lækkaði svo skarp sem raun varð á undanfarin misseri.

Það eina sem ganga má út frá sem vísu við svona innistæðulausar milljarðaspár er að þær draga úr ábyrgðartilfinningunni sem nauðsynlegt er að stjórnmálamenn hafi við fjárlagagerðina. Er ekki bara í góðu lagi að auka aðeins við útgjöldin þegar von er að tugum milljarða á hverju ári frá Herði?