Helgarsprokið 12. júní 2016

Vefþjóðviljinn 165. tbl. 20. árg.

Það skiptir máli hverjir eru við völd. Ekki aðeins hverjir sitja í ráðherrastólum, sem þó skiptir verulegu máli, eða hver er borgarstjóri eða hverjir bæjarstjórar. Það skiptir líka máli hverjir hinir almennu kjörnir fulltrúar eru, óbreyttir alþingismenn, borgarfulltrúar og bæjarfulltrúar.

Það er rangt sem margir segja oft, að stjórnmálamenn séu allir eins.

Það er hins vegar rétt að ótrúlega margir frambjóðendur eru svipaðir. En þessi mikli fjöldi svipaðra stjórnmálamanna ætti raunar ekki að fara mjög í taugarnar á þeim sem hæst láta í umræðunni hverju sinni. Mjög stór hluti stjórnmálamanna hefur nefnilega enga ósk heitari en að falla að því sem hann heldur að sé almenningsálitið í hverju máli.

Það eru ekki margir stjórnmálamenn sem opinberlega taka afstöðu sem er þvert gegn afgerandi niðurstöðu nýjustu skoðanakannana.

Það eru ekki margir stjórnmálamenn sem andæfa þegar “netheimar loga“.

Það eru ekki margir stjórnmálamenn sem þora að hlæja upphátt þegar hóphyggjan talar hæst á “samfélagsmiðlum”.

Það eru ekki margir stjórnmálamenn sem þora að spyrja hvor sé sá gráðugi, sá sem vill takmarka skattgreiðslur sínar eins og lög heimila eða sá sem vill að sem allra hæstu hlutfalli af eignum og launum annars fólks verði varið til að niðurgreiða hans eigin áhugamál.

Það eru ekki margir stjórnmálamenn sem þora að segja að meginreglan eigi að vera sú að launþeginn haldi þeim tekjum sem hann vann sér inn, og að skattgreiðslur eigi því að vera undantekning sem beri að rökstyðja og að skattfé eigi aðeins að verja til nauðsynlegra mála.

Það skiptir miklu máli hverjir veljast til valda, í ráðherrastóla, á þing, í borgarstjórn og í bæjarstjórnir.

Þegar haldin eru prófkjör ætti frjálslynt fólk að spyrja frambjóðendur hvar þeir standi í raun í slíkum málum, og hversu fastir þeir séu í raun fyrir. Eru þeir alveg á móti kynjakvótum, nema einmitt þeim sem munu heyra undir þeirra ráðuneyti? Vilja þeir minni ríkisumsvif, nema einmitt í þeim málaflokkum sem verða á þeirra ábyrgð?

Hafi þeir áður setið á þingi eða í sveitarstjórn á að spyrja hvernig þeir hafi greitt atkvæði, til dæmis í skattamálum og útgjaldamálum. Hafa þeir í raun barist fyrir lækkun tekjuskatts, útsvars eða fasteignagjalda? Hafa þeir greitt atkvæði gegn útgjaldamálum sem “þverpólitísk sátt” var um?

Það á að spyrja frambjóðendur hvort þeir muni fylgja “þverpólitískri sátt” um mál, sem engin ástæða er til að vinstrimenn og hægrimenn séu sammála um.

Og það ætti að spyrja frambjóðendur í hvaða málum þeir hafi opinberlega barist gegn því sem var vinsælasta skoðunin á þeim tíma.

Frjálslynt fólk á að kjósa þá til valda sem í raun vilja létta byrðum af borgurunum, lækka skatta, einfalda reglur, afnema boð og bönn. Frjálslynt fólk á ekki að kjósa þá sem enga stefnu virðast hafa.

Prófkjör nálgast víða. Frjálslynt fólk ætti að gæta þess að kaupa ekki köttinn í sekknum.