Vefþjóðviljinn 164. tbl. 20. árg.
Í orðaskiptum sem Steingrímur J. Sigfússon átti við Sigríði Á. Andersen og fleiri þingmenn á alþingi í liðinni viku sagði Steingrímur meðal annars:
Finnst satt best að segja undarlegt að heyra jafnvel konur koma hér upp og tala eins og þær hafi ekki einustu hugmynd um þá kynjaskírskotun sem þetta auðvitað hefur.
Tilefnið var að Sigríður og fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Bjartrar framtíðar höfðu komið því til leiðar í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins að þegar þrepum fækkar í tekjuskattskerfinu um næstu áramót verði hjónum og pörum í sambúð heimilt að flytja ónýtt réttindi annars yfir á hitt þannig að um fulla samsköttun verði að ræða. Að öðrum kosti geta tvenn hjón með sömu samanlagðar tekjur greitt mismunandi tekjuskatt, svo skeikar allt að 780 þúsund krónum á ári.
Sem fjármálaráðherra lét Steingrímur gera hjónum þar sem aðeins annað er á vinnumarkaði þessa sérstöku refsingu. Nú upplýsir hann að inn í það hafi spilað „kynjaskírskotun“. Væntanlega lúrir þarna undir ótti við að það hjóna sem hefur hærri tekjur loki maka sinn (konuna) inn á heimilinu. Ekki er gert ráð fyrir að annað hjóna geti ekki unnið utan heimilis af ýmsum ástæðum og ekki virðist heldur gert ráð fyrir þeim möguleika að sambúðarfólk sé af sama kyni. Og Steingrímur er móðgaður yfir því að „jafnvel konur“ fallist ekki á því að slík skírskotun eigi rétt á sér.
Eiga konur að hafa tilteknar skoðanir bara af því þær eru konur?