Þriðjudagur 31. maí 2016

Vefþjóðviljinn 152. tbl. 20. árg.

Eitt af því sem Steingrímur og Indriði gerðu til að hækka skatta og flækja skattkerfið á síðasta kjörtímabili var að afnema að hluta samsköttun hjóna og sambúðarfólks.

Mörg ár þar á undan hafði ekki skipt máli hvort hjóna aflaði tekna eða í hvaða hlutföllum, endanlegur tekjuskattur varð hinn sami.

Hjón bera fulla ábyrgð á skattskuldum hvort annars. Ýmsar bætur til þeirra eru sömuleiðis tengdar tekjum beggja. Persónuaflsáttur í tekjuskattskerfinu er einnig millifæranlegur. Þegar þriggja þrepa tekjuskattur var tekinn upp 2010 var hins vegar tekin upp sérstök regla fyrir hjón sem féllu ekki í sama tekjuskattsþrep. Það hjóna sem er í efsta þrepi getur bara nýtt helming af ónýttri nýtingu hins í miðþrepinu.

Af þessu skapaðist verulegt óhagræði fyrir hjón þar sem annað var til að mynda heima við vegna eigin veikinda, atvinnuleysis eða til að aðstoða aðra úr fjölskyldunni sem eiga bágt með að sjá um sig sjálfir.

Verði samsköttun ekki heimil að fullu þegar skattþrepum fækkar um næstu áramót getur munað allt að 780 þúsund krónum á árlegum skattgreiðslun hjóna eftir því hvernig tekjur skiptast á milli þeirra.

Meðal þeirra röksemda sem heyrst hafa fyrir þessu fyrirkomulagi er að um „kynjaða hagstjórn“ sé að ræða, einhvers konar tilraun til að koma báðum hjónunum (konunni) út á vinnumarkaðinn. En nú eru tveir karlar stundum í sambandi, hvers eiga þeir að gjalda?