Mánudagur 30. maí 2016

Vefþjóðviljinn 151. tbl. 20. árg.

Margir segjast vera þeirrar skoðunar að vinstri og hægri séu „úrelt hugtök“. Heimurinn sé „miklu flóknari en svo“.

En er það rétt? Getur verið að raunveruleg merking orðanna sé „Ég er vinstrimaður en vil ekki segja það, hvorki við sjálfan mig né aðra.“

Hafa ekki flestir í raun skýra afstöðu til ríkisins, hins opinbera, og svo einstaklingsins? Hafa ekki flestir í raun ákveðna grunnafstöðu til þess hvernig horfa beri á réttindi einstaklingsins gagnvart hinu opinbera?

Og ætli skilgreiningin á vinstri og hægri sé ekki í raun mjög lifandi þegar kemur að þessari grunnafstöðu?

Það segir töluverða sögu um menn, hvernig þeim finnst grundvallarmannréttindi vera. Snúast þau um að hindra ríkið í að brjóta á einstaklingnum? Eða snúast þau kannski um að skipa ríkinu að gera eitthvað fyrir einstaklinginn? Í þessu kemur oft fram munur á lífsafstöðu til hægri eða vinstri.

Finnst mönnum grundvallarréttindi sín vera sú að vera ekki sviptur lífi, heilsu, eignum og atvinnu. Að vera ekki bannað að segja skoðun sína eða stofna félag eða ganga í stjórnmálaflokk. Eða finnst þeim réttindin vera að skattgreiðendur eigi að tryggja þeim framfærslu, atvinnu og annað af þeim toga?

Finnst mönnum að stjórnmálaréttindi snúist um að mega stofna stjórnmálaflokk, ganga í stjórnmálaflokk og styrkja stjórnmálaflokk án þess að snuðrarar ríkisins fylgist með því? Eða finnst mönnum stjórnmálaréttindi snúast um að ríkið veiti hundruðum milljóna króna í stjórnmálaflokka og takmarki rétt einstaklinga til styrkveitinga og krefjist þess að slíkir styrkir séu auglýstir opinberlega?

Finnst mönnum að meginreglan eigi að vera sú að einstaklingurinn eigi sjálfsaflafé sitt sjálfur. Greiðslur hans til ríkisins eigi að vera undantekning en ekki regla og að þess vegna eigi ríkið að takmarka útgjöld sín við það sem nauðsynlegt telst hverju sinni? Eða finnst mönnum að stjórnmálamenn megi ákveða útgjöld að vild sinni og svo eigi skattgreiðendur einfaldlega að borga?

Finnst mönnum skattalækkun vera að skattborgarinn fái að halda meiru eftir af því sem hann vann sér inn. Eða finnst mönnum skattalækkun vera tekjutap ríkisins?