Vefþjóðviljinn 144. tbl. 20. árg.
Það er engin ástæða til að rjúfa þing og kjósa til Alþingis í haust.
Það er raunar fráleitt að rjúfa þing enda gefur enginn skýringu á að það ætti að gera. Ríkisstjórnin hefur traustan þingmeirihluta. Kjörtímabilinu á að ljúka á næsta ári en ekki á þessu ári.
Menn rjúfa ekki þing nema kjörtímabili sé lokið eða að Alþingi hafi ekki tekist að mynda meirihlutastjórn. Ef ríkisstjórnin hefur misst meirihluta sinn og ekki er hægt að mynda aðra meirihlutastjórn án kosninga. Við þær aðstæður kemur til greina að rjúfa þingið, en það væri fráleitt við núverandi aðstæður.
Stjórnarandstaðan er dauðhrædd um að þetta renni upp fyrir ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Þess vegna er sífellt verið að reyna að þvinga þá til að leika endanlega af sér og ákveða dagsetningu kosninganna.
Brosleg tilraun fór fram í dag. Stjórn Samfylkingarfélagsins í Reykjavík sendi frá sér ályktun þar sem hún sagði að það væri „óþolandi að starfstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar hafi ekki tekið af allan vafa og sett niður dagsetningu fyrir þingkosningar“.
Frekjan í stjórnarandstöðunni er slík að hún er farin að kalla ríkisstjórnina „starfsstjórn“. Ríkisstjórn sem hefur 38 þingmenn gegn 25 þingmönnum stjórnarandstöðunnar, þegar tæpt ár er eftir af kjörtímabili, er ekki starfsstjórn. Það er ótrúleg fölsun að tala með þessum hætti.
En auðvitað reynir stjórnarandstaðan að grípa tækifærið þegar ráðherrarnir gefa slíkt færi á sér. Martröð hennar er að ráðherrarnir átti sig á því að ekkert réttlætir þingrof og kosningar núna og að það væri bæði ábyrgðarleysi og svik við kjósendur sína, ef þeir gæfust upp.
Það segir sína sögu að enginn nefnir neina ástæðu fyrir þingrofi og kosningum aðra en þá að ráðherrar hafi nefnt í einu viðtali í síðasta mánuði að það kæmi til greina.