Þriðjudagur 24. maí 2016

Vefþjóðviljinn 145. tbl. 20. árg.

Ásgeir Ingvarsson skrifar um það í bílablað Morgunblaðsins í dag að nýlega var ákveðið að leggja af strætisvagnaferðir milli Reykjavíkur og Þorlákshafnar.

Ég held það hafi verið fyrir þremur árum að kjörnum fulltrúum hugkvæmdist að útvíkka leiðakerfi Strætó Bs. lengst út í sveit. Var þetta það nýjasta í röð margra uppátækja og fjárausturs sem eiga að efla almenningssamgöngur, og koma fólki í vagnana með góðu eða illu.

Í tilviki Þorlákshafnar voru að meðaltali aðeins tveir farþegar í hverri ferð. Fáum sögum fer af farþegafjöldanum á öðrum landsbyggðarleiðum Strætó, sem ná allt austur á Egilsstaði.

Hitt má þó áætla út frá ársreikningi fyrirtækisins að skattgreiðendur niðurgreiði næstum 80% af kostnaðinum við hverja strætóferð. Sá sem tekur strætisvagn tvisvar á dag, alla virka daga, alla mánuði ársins, fær um 177.000 kr meðgjöf frá skattgreiðendum yfir árið (um 350 kr fyrir hverja ferð að jafnaði, eða 14.700 kr á mánuði). Meðalfarþeginn borgar á móti 99 kr fyrir ferðina úr eigin vasa.

Líklega er þó niðurgreiðsla skattgreiðenda meiri en þetta enda hefur strætó til að mynda fengið endurgreitt olíugjald á undanförnum árum þótt sú endurgreiðsla sé ekki lengur til staðar. Þá er álag hinna þungu vagna á göturnar ofboðslegt.

Þá eru ótalin áhrif vagnanna á loftgæði í Reykjavík en margir þeirra eru gamlir Dieselvagnar sem senda frá sér verulega sótmengun og óvíst er að vegna þess hve nýting þeirra er slök sér útblástur gróðurhúsalofttegunda á farþegakíómetra minni en frá einkabíl. 

Hitt sem Ásgeir bendir er að þessu er öfugt farið með einkabílinn. Þar hirðir ríkið stórfé af notendum.

Ríkið tekur til sín um helming af verði bensínlítrans, og a.m.k. þriðjung af kaupverði nýrra bíla. Fljótheitaútreikningar leiða í ljós að ef ekki væri fyrir himinháa skattana ætti varla að kosta meira en 20-30.000 kr á mánuði að reka notaðan, lítinn og sparneytinn bíl. Það er upphæð sem jafnvel auralitlir námsmenn myndu ráða vel við, og myndu glaðir borga í skiptum fyrir þau þægindi og frelsi sem bíllinn veitir.