Helgarsprokið 22. maí 2016

Vefþjóðviljinn 143. tbl. 20. árg.

Menn þurfa ekki að vera andvígir tilteknum hlutum þótt þeir samþykki ekki umyrðalaust að skattfé sé varið í þá.
Menn þurfa ekki að vera andvígir tilteknum hlutum þótt þeir samþykki ekki umyrðalaust að skattfé sé varið í þá.

Franski rithöfundurinn og þingmaðurinn Frédéric Bastiat skrifaði um miðja 19. öld í eitt af ritum sínum, Lögin.

Jafnaðarstefnan ruglar saman stjórnvöldum og samfélagi, rétt eins og þær gömlu stjórnmálahugmyndir sem hún er sprottin af. Því er það að í hvert sinn sem við viljum ekki að stjórnvöld geri eitthvað, ályktar jafnaðarstefnan að við viljum ekki að það sé gert yfir höfuð. Við viljum ekki að ríkið sjái um menntun; þar með viljum við ekki neina menntun. Við viljum ekki hafa ríkistrú; þar með viljum við ekki hafa neina trú. Við viljum ekki að ríkið sjái um kjarajöfnun; þar með viljum við ekki hafa neinn jöfnuð, og þar fram eftir götum. – Það mætti eins segja að við viljum ekki að fólk borði, af því við viljum ekki að ríkið rækti korn.

Nú liggur fyrir nýr búsvörusamningur milli ríkisins og  bænda. Hann er til 10 ára og gerir ráð fyrir að beinir styrkir til landbúnaðarins verði 1,5 milljónir króna á hverri klukkustund þessi 10 ár.

Stuðningur skattgreiðenda við búskapinn verður því svipuðu horfi og hann hefur verið um áratugi þótt heldur hafi hann lækkað sem hlutfall af landsframleiðslu og ríkisútgjöldum í seinni tíð.

Það verður að gera ráð fyrir að svo miklum fjármunum sé varið með gott eitt í huga og þeir sem leggja fram búvörusamning af þessu tagi trúi því í einlægni að hann sé bændum hagfelldur.

En því miður vitum við ekki hvernig íslenskum landbúnaði hefði reitt af án þessara beinu og óbeinu ríkisstyrkja sem hann hefur notið um áratugi. Hefði hann lognast út af eins og margir óttast eða jafnvel dafnað langt umfram það sem við þekkjum í dag? Og ýmislegt annað má svo fá fyrir 1,5 milljónir á hverri klukkustund.

Líkt og Bastiat benti á fyrir hálfri annarri öld er ekki sanngjarnt að stilla þeim sem hafa efasemdir um ríkisstuðninginn upp sem óvildarmönnum landbúnaðarins. Og þetta á raunar við um flest önnur ríkisútgjöld. Menn þurfa ekki að vera andvígir tilteknum hlutum þótt þeir samþykki ekki umyrðalaust að skattfé sé varið í þá. Þvert á móti kann það að vera af umhyggju fyrir hlutunum sem menn eru andvígir að ríkið taki þá upp á sína arma.

Einn þáttur í stuðningi ríkisins við landbúnaðinn var lengi styrkir til framræslu lands. Talið er framræsluskurðirnir séu um tvítugföld hringferð um landið að lengd, um 30 þúsund km. Aðeins um 15% hins framræsta lands er nýtt sem ræktarland. Upp úr hinu ónýtta framræsta landi stendur strókur gróðurhúsalofttegunda sem áætlað er að sé um ¾ af árlegum útblæstri slíkra lofttegunda hér á landi.