Föstudagur 13. maí 2016

Vefþjóðviljinn 134. tbl. 20. árg.

Starfsmenn borgarinnar þurfa kannski ekki nema 35 tíma til að ljúka 40 stunda vinnu en borgarbúar þurfa að vinna alla 40 tímana til að eiga fyrir útvarinu.
Starfsmenn borgarinnar þurfa kannski ekki nema 35 tíma til að ljúka 40 stunda vinnu en borgarbúar þurfa að vinna alla 40 tímana til að eiga fyrir útvarinu.

Reykjavíkurborg hefur undanfarið staðið fyrir „tilraunaverkefni“ sem snýst um að stytta vinnutíma starfsmanna ákveðinna stofnana, án þess að laun þeirra lækki að sama skapi.

Nú hafa fyrstu niðurstöður verið kynntar og kemur í ljós að starfsmenn þessara stofnana eru almennt ánægðir með þessa nýbreytni.

Það er nú fínt.

En hvernig væri að borgaryfirvöld færu af stað með annað tilraunaverkefni, sem sneri að borgarbúum almennt, en ekki starfsmönnum nokkurra stofnana?

Hvernig væri að bjóða borgarbúum upp á lækkað útsvar, án þess að skerða „nauðsynlega þjónustu“?

Eftir margra ára stjórn vinstrimanna í Reykjavík er útsvarið komið í hæstu mörk. Borgarfulltrúar virðast telja sjálfsagt að þeir fái að taka eins mikið og lög leyfa úr vösum borgarbúa.

Allir launamenn greiða útsvar. Útsvarslækkun kæmi öllum launamönnum í borginni til góða. Útsvarslækkunin myndi skilja aðeins meira eftir í vasa launamannsins um hver mánaðamót.

Hvers vegna gera borgaryfirvöld það ekki?

En hvar á þá að skera niður, spyr einhver á móti.

Enginn spyr þó hvar launþeginn eigi að spara, þegar borgaryfirvöld leggja á hann hæsta leyfða útsvar.

En borgin getur sparað úti um allt. Þegar búið er að ákveða útsvarslækkunina mun borgin einfaldlega laga útgjöld sín að þeim tekjum sem hún fær. Það verður þá kannski hætt við einhverja þrengingu götu eða einhver nefnd, sem var stofnuð handa Pírötum, verður lögð niður aftur. Það þyrfti ekki að skera niður neina mikivæga þjónustu, þótt útsvarið yrði lækkað.

Útsvarslækkun gagnast öllum. En borgaryfirvöld eru á móti útsvarslækkun. Og fréttamönnum dettur ekki í hug að spyrja alvarlega um skattamálin í borginni.