Vefþjóðviljinn 109. tbl. 20. árg.
Það er ekkert nýtt að fréttamenn taki hægrimenn öðrum tökum en vinstrimenn. Það er ekki alltaf tilviljun sem veldur því hvað fréttamönnum finnst vera algert hneyksli sem kalli á margendurteknar fréttir, viðtöl og upprifjanir og hvað þeim finnst ekki eiga erindi við neinn. Það er ekki heldur alltaf tilviljun hverjir fá að gaspra athugasemdalaust í fjölmiðlum og hverja má aldrei vitna í nema einhverjir verði fundir til að andmæla þeim, jafnvel undir sérfræðititlum.
Það má taka ný og ný dæmi.
Undanfarið hefur Morgunblaðið flutt fréttir af undarlegu eignarhaldi þess húsnæðis þar sem Samfylkingin hefur aðsetur sitt. Eigendur, eða eigendur eigendanna, hússins virðast vera óskráð félög sem ekki er vitað hverjir stjórna og litlar upplýsingar eru veittar um málin.
Nú geta menn alveg verið þeirrar skoðunar að slík mál eigi að vera einkamál stjórnmálaflokkanna en menn ættu að velta fyrir sér hvernig Ríkisútvarpið léti ef einhver annar flokkur ætti í hlut. Ef huldufélög ættu Valhöll eða ættu félög sem segðust eiga félög sem sögð væru eiga húsnæði Framsóknarflokksins, hversu margar mínútur liðu þar til fréttastofan í Efstaleiti fengi flog?
Það er ekki eins og núna sé lítill áhugi á félögum í felum. Margir halda til að mynda að það sé glæpur að eiga „aflandsfélag“ og virðast ekki einu sinni átta sig á því að jafnvel skattalögin gera ráð fyrir þeim möguleika sem löglegum.
Fleira tengist aflandsfélögum. Margir fjölmiðlamenn, sem stundum hafa mikinn áhuga á álitum umboðsmanns Alþingis, höfðu lítinn áhuga á því þegar hann sagði á fundi þingnefndar að hann sæi ekki ástæðu til að skipta sér af málefnum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í tengslum við uppgjör bankanna. Þar réði ekki bara fjárskortur. Umboðsmaður alþingis taldi ekki um vanhæfi að ræða hjá Sigmundi og ekki brot á stjórnsýslulögum eða góðum stjórnsýsluháttum. Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar sagði í framhaldi af þessu að núverandi ríkisstjórn hefði hefnt sín á núverandi umboðsmanni vegna góðrar frammistöðu hans í „lekamálinu“. Þess vegna hefðu fjárveitingar til hans verið skornar niður.
Enginn fréttamaður spurði formann Samfylkingarinnar hvernig þessi kenning hans um refsingar og hefnd kæmi heim og saman við þá staðreynd að Tryggvi Gunnarsson var endurkjörinn umboðsmaður Alþingis til fjögurra ára í desember síðastliðnum. Tímabil hans var þá útrunnið en stjórnarmeirihlutinn endurkaus hann, sem honum bar engin skylda til að gera. Stjórnarliðar sem hefðu viljað hefna sín á Tryggva hefðu einfaldlega getað sleppt því að kjósa hann, en þeir endurkusu hann til fjögurra ára. Auðvitað veit Árni Páll þetta, en hann nefnir það ekki. „Stjórnarliðarnir, sem endurkusu Tryggva í desember, voru sko að hefna sín á honum í fjárlögunum“ hljómar ekki alveg eins vel.
Nú geta menn alveg verið ósammála umboðsmanni um þessi mál eða einhver önnur. Hann er ekki óskeikull frekar en aðrir. Það skiptir ekki máli í þessu samhengi. Það sem er áhugavert er að stjórnarandstaðan og fréttamenn hafa mjög oft í raun talað eins og umboðsmaðurinn hafi alltaf rétt fyrir sér, aðfinnslur hans séu réttar og mjög alvarlegt mál sem mjög oft þarf að rifja upp í fréttum og umræðum.