Helgarsprokið 17. apríl 2016

Vefþjóðviljinn 108. tbl. 20. árg.

Það er margt sem gengur aftur, frá bankahrunstímanum og árunum þar á eftir. Eitt af því er „orðspor okkar erlendis“.

Um leið og fjölmiðlar fengu að birta fréttir úr skjölunum frá Panama var því slegið upp alls staðar að forsætisráðherra Íslands væri einn þeirra sem ætti leynireikninga, og í næstu andrá voru nefndir menn eins og Assad í Sýrlandi. Félagar Pútíns voru líka nefndir til sögunnar. Ekki er víst að á erlendu fjölmiðlunum hafi margir vitað af því að íslensku peningarnir munu vera löglega fengið fé eiginkonu ráðherrans og að sögn hjónanna taldir fram til skatts þótt það væri verulega borgað að skýra ekki frá þeim hagsmunum sem sköruðust á við störf ráðherrans.

En fréttirnar voru sagðar, Assad, Pútin og Sigmundur. Það er bara ekkert skemmtilegt við það, fyrir Ísland. Eða fyrir „orðspor okkar erlendis“.

Í bankahruninu töldu margir að frásagnir erlendra fjölmiðla hlytu að vera það rétta hverju sinni. Það sem Gordon Brown segði, það væri auðvitað rétt. Sama var uppi á teningnum í Icesave-málinu, einkum fyrst í stað. Ríkisútvarpið sagði samfelldar fréttir um það hvernig talað væri um Ísland erlendis, eftir að forseti Íslands neitaði að staðfesta fyrstu Icesave-lögin. Orðspor okkar var búið. Fjöldi manns taldi að eina leiðin til að verða aftur þjóð meðal þjóða væri að gera það sem „alþjóðasamfélagið“ segði. Það væri siðaðra manna háttur. Og uppeldisatriði fyrir börnin. Annars yrðum við álitin ræningar. Landið yrði Kúba norðursins.

En það er mjög skiljanlegt að fjöldi fólks hafi verið undrandi og reiður. Þegar vægast sagt ósannfærandi frammistaða forsætisráðherrans fyrrverandi í sérkennilegu viðtali blandaðist saman við hugtök eins og aflandsfélag, leynd, Tortóla og „orðspor okkar erlendis“, þá getur jafnvel rólegasta fólk orðið mjög óánægt. Þá fara menn fljótt í tvo hópa, þá sem eru tilbúnir að hlusta á stutt, skýr og heiðarleg svör, og þá sem ætla ekki að hlusta á neitt.