Föstudagur 1. apríl 2016

Vefþjóðviljinn 92. tbl. 20. árg.

Frumkvöðlar eru jafnan mikils metnir og jafnvel talið að þeir eigi að fá undanþágur og skjól frá sköttum sem aðrir greiða. Nú er einnig mikið rætt um aflandsfélög og skattaskjól. 

Hér er til dæmis frétt úr Morgunblaðinu frá 11. júní 1995 um brautryðjanda.

Morgunblaðið 11. júní 1995.
Morgunblaðið 11. júní 1995.

Mikil umræða hefur verið undanfarið um að Íslendingar eigi félög sem starfa eða eru skrásett í öðrum ríkjum. Hefur ekki farið milli mála að mörgum finnst þetta hneyksli. Ríkisútvarpið boðar að um þetta verði mikill þáttur eftir nokkra daga, en telur greinilega ekki að upplýsingarnar sem fram koma í þættinum séu svo áríðandi að þær þurfi að birtast strax. 

En það hlýtur þá að vera gersamlega ólöglegt að eiga félög eins og þessi. Eða að minnsta kosti siðlaust ef það er ekki ólöglegt, er það ekki? Varla fjalla fjölmiðlar um einkafjármál fólks, nema fólkið hafi verið staðið að alvarlegum lögbrotum, eða hvað? 

Hvað segja skattalögin um þetta siðleysi, að stofna félög erlendis? Í lögum um tekjuskatt, grein 57.A, segir til dæmis: 

Skattaðili sem á beint eða óbeint hlut í hvers kyns félagi, sjóði eða stofnun sem telst heimilisföst í lágskattaríki skal greiða tekjuskatt af hagnaði slíkra aðila í hlutfalli við eignarhluta sinn án tillits til úthlutunar. Hið sama á við um skattaðila sem stjórnar félagi, sjóði, stofnun eða eignasafni í lágskattaríki sem skattaðili hefur beinan eða óbeinan ávinning af. Tekjur þessar eru skattskyldar með sambærilegum hætti og um væri að ræða starfsemi hér á landi.

Það er ekkert að því að eiga félag í öðru ríki. Það er meira að segja löglegt að eiga félag í „lágskattaríki“. Svo lengi sem menn greiða tekjuskatt af hagnaði félagsins í samræmi við lögin, þá er slíkt alveg í samræmi við skattalög. Það, að einhver eigi félag í „lágskattaríki“, er því ekki fréttnæmt eitt og sér. Öðru máli getur auðvitað gegnt ef hann hefur verið staðinn að stórfelldum skattsvikum með því að telja ekki fram mikinn hagnað, en þá er það fréttaefnið en ekki eignarhaldið eitt og sér. Það að eiga félag í „lágskattaríki“ er ekki ólöglegra en svo að það er beinlínis gert ráð fyrir því í lögum.