Fimmtudagur 31. mars 2016

Vefþjóðviljinn 91. tbl. 20. árg.

Það er algert óðagot í Framsóknarflokknum. Flokksmenn leita í dauðans ofboði að einhverju til að ræða fremur en dulítið mál sem kom upp í Karíbahafi.

Er ekki hægt að þyrla einhverju upp um Jóhönnu og Steingrím?

Já hvað með „leyniskjölin“ og „dauðalistann“ sem þau skötuhjú settu í „lokaða herbergið“ sem þau svo læstu, hentu lyklinum og settu að því búnu „110 ára regluna“ um?

Jú einmitt við leggjum fram frumvarp um að afnema „leyndina“ af þessum gögnum.

Það er samþykkt í 19 manna þingflokki Framsóknarflokksins.

En eehh það var reyndar núverandi ríkisstjórn sem sendi „leyniskjölin“ og „dauðalistann“ í „lokaða herbergið“. Það var einnig stjórnarfrumvarp sem leiddi „110 ára regluna“ í lög. Árið 2014. Í tíð ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs. Líneik var framsögumaður þingnefndarinnar sem bar málið í gegnum þingið. Allir 17 viðstaddir þingmenn Framsóknarflokksins studdu það svo í atkvæðagreiðslu þegar  „110 ára reglan“ var leidd í lög.  

Óðagot er líklega ekki nógu sterkt orð til að lýsa þessu.