Miðvikudagur 24. febrúar 2016

Vefþjóðviljinn 55. tbl. 20. árg.

Kosningastjóri Pírata segir það þyngra en tárum taki að flokksmenn hafi gagnrýnt Birgittu Jónsdóttur opinberlega. Það sé nefnilega „nauðsynlegt að fólk í æðstu stöðum njóti trúnaðar alls flokksfólks.“
Kosningastjóri Pírata segir það þyngra en tárum taki að flokksmenn hafi gagnrýnt Birgittu Jónsdóttur opinberlega. Það sé nefnilega „nauðsynlegt að fólk í æðstu stöðum njóti trúnaðar alls flokksfólks.“

Landsmenn hafa fengið nýja innsýn í Pírata-flokkinn undanfarið, flokkinn sem þriðji hver landsmaður segist ætla að kjósa til valda um leið og hann getur. Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður Pírata segir að Birgitta Jónsdóttir þingmaður Pírata hafi opinberlega rægt annað fólk „þónokkuð oft og mikið“ og segir líka að vegna ástandsins innan Pírata líði sér eins og í „ofbeldissambandi“.

Erna Ýr Öldudóttir, sem er hvorki meira né minna en formaður framkvæmdaráðs Pírata, hefur undanfarið gagnrýnt Birgittu fyrir að taka sér leyfislaust titil formanns eða leiðtoga flokksins opinberlega.

Þetta er óvænt innsýn í Pírata-flokkinn og ætti að vekja mikinn áhuga bæði fjölmiðlamanna, stjórnmálafræðinga og almennra kjósenda í ljósi fylgis við flokkinn í skoðanakönnunum.

En vilja allir að almenningur fái að heyra af þessu?

Svanur Kristjánsson stjórnmálafræðiprófessor og fyrrverandi kosningastjóri Pírata segir á Facebook að það sé þyngra en tárum taki að Erna Ýr hafi gagnrýnt Birgittu opinberlega. Það sé nefnilega „nauðsynlegt að fólk í æðstu stöðum njóti trúnaðar alls flokksfólks.“

Hvað hefði fólk sagt ef svona viðhorf heyrðust úr röðum „fjórflokksins“? Að „fólk í æðstu stöðum“ eigi einfaldlega að njóta trúnaðar „alls flokksfólks“ og gagnrýni eins og þessi megi ekki koma fram?

Ætli það hefði ekki verið einn ein röksemdin fyrir því að fá „nýtt fólk“ til valda? „Gegnsæi“. „Allt upp á borðið“?

Og ef annar helsti forystumaður stjórnmálaflokks segði opinberlega að hinn helsti forystumaðurinn gerði mikið af því að rægja annað fólk, hvernig yrði því tekið? Annað hvort er annar forystumaðurinn mikið í því að rægja annað fólk, eða hinn ber slíkt ranglega upp á hann opinberlega.