Mánudagur 22. febrúar 2016

Vefþjóðviljinn 53. tbl. 20. árg.

Annan veturinn í röð hefur alþingi til meðferðar frumvarp til laga sem leyfa myndu einkaaðilum að selja áfengi í smásölu. Gegn þessu frumvarpi er barist af mikilli hörku á þinginu og allt gert til að koma í veg fyrir að atkvæði verði greidd um það.

Það er athyglisvert að andstæðingar frumvarpsins tala mikið um að frumvarpið sé um að áfengi verði selt í matvöruverslunum. Frumvarpið er ekkert sérstaklega um það, þótt það myndi opna fyrir slíkt, heldur um afnám einkaréttar ríksins til smásölu á áfengi. En greinilegt er að andstæðingar frumvarpsins telja að með því að tala fyrst og fremst um matvöruverslanir geti þeir fært umræðuna um þær og frá almennum sjónarmiðum um verslunarfrelsi.

Þeir hamra þess vegna á „freistnivandanum“ sem það fólk verði fyrir, sem reynir að forðast áfengi en þarf að kaupa í matinn. Dagleg barátta þessa við vínlöngunina verði miklu erfiðari ef það getur ekki keypt í matinn nema sjá vínflöskur boðnar til sölu.

Þessi rök eru ekki einskis virði. Það á ekki að gera lítið úr þeirri baráttu sem margir eiga í við sjálfa sig, á hverjum einasta degi, til að forðast áfengið. Fyrir marga er þar allt í húfi. Það er fullkomlega virðingarvert að tala máli þessa fólks og vera þess vegna hikandi við það að hleypa áfenginu inn í matvöruverslanirnar.

En ætli þetta ráði í raun för hjá öllum þeim sem berjast gegn frumvarpinu? Ætli andúðin á viðskiptafrelsi og einkarekstri skipti kannski meira máli hjá mörgum þeirra?

Mjög margir af andstæðingum frumvarpsins á þingi láta oft eins og þeir vilji sættir, samræðu og málamiðlanir. En hafa þeir reynt eitthvað slíkt í þessu máli? Hafa þeir lagt eitthvað til, sem gæti orðið málamiðlun?

Auðvitað er hægt að ímynda sér ýmsar útfærslur. Í núverandi frumvarpi er til dæmis gert ráð fyrir takmökunum á því á hvaða tímum dagsins verði heimilt að selja áfengi í smásölu. Slíkt mætti útfæra nánar. Það er hægt að setja takmarkanir við því í hversu mörgum verslunum í sama sveitarfélagi matvörukeðjur mega bjóða upp á áfengi. Það er hægt að setja takmarkanir við því í hversu stórum verslunum selja má áfengi. Það er meira að segja hægt að banna að selja áfengi á sama stað og hefðbundin matvæli, en leyfa einkaaðilum smásölu annars staðar.

Vefþjóðviljinn er ekki með þessu að tala fyrir slíkum breytingum. En þær eru dæmi um tillögur sem þeir, sem eru í raun hlynntir verslunarfrelsi en vilja takmarka það til að gæta hagsmuna þeirra sem berjast við eigin áfengislöngun, gætu lagt til, ef þeir vilja í raun miðla málum.

En hugsanlega er það í raun verslunarfrelsið sem þeir eru á móti.